„Þetta var mjög krefjandi, nokkurra klukkutíma rúntur og skyggnið var nánast ekki neitt,“ segir Teitur Magnússon, varaformaður Björgunarfélags Ísafjarðar.
Björgunarsveitir frá Þingeyri, Flateyri og Ísafirði voru kallaðar út til aðstoðar fólki á Dynjandisheiði en skollið hafði á þreifandi bylur og skyggni var lítið sem ekkert.
„Við vorum kölluð út rétt upp úr klukkan hálfníu í gærkvöldi og komum aftur í hús upp úr klukkan fjögur í nótt.“
Teitur segir nær ekkert fjarskiptasamband á hátt í tíu kílómetra löngum kafla á Dynjandisheiði.
„Það má segja að við séum nánast sambandslausir alveg frá Dynjanda og upp að sýslumörkum sem er líklega hátt í tíu kílómetra spotti.
Þeir sem stjórna aðgerðum sjá ekki hvar við erum og við getum ekki talað við neinn og erum hvorki í farsíma- né Tetra-sambandi en Tetra kerfið á að heita neyðar- og öryggisfjarskiptakerfi,“ segir Teitur.
„Á þessari leið er til dæmis þekkt snjóflóðasvæði og manni líður ekki vel að fara þarna um og geta ekkert látið vita ef eitthvað kemur upp á,“ segir hann enn fremur.
Hann segir Björgunarfélagið hafa komið fyrir bíl við Dynjanda í gær og nýtt sem eins konar stjórnstöð á vettvangi.
„Við notuðum VHF-kerfi til að kalla á milli bíla og notuðum bílinn við Dynjanda sem millilið á milli bílanna eða eins konar stjórnstöð.“
Teitur segir að þrýst hafi verið á úrbætur á réttum stöðum en það strandi allt á einu.
„Við höfum verið í ágætis sambandi við Neyðarlínuna vegna þessa en það eru allir aðilar á sama máli. Þetta er ekki boðlegt ástand en þetta strandar allt á fjármagni.“