Félags- og heilbrigðisráðherrar Norðurlandanna komu saman í dag og samþykktu yfirlýsingu þess efnis að tryggja þurfi aðgang fatlaðs fólks að stafrænum lausnum og að aðgangur allra að stafrænum lausnum sé lykilatriði til að ná því markmiði að vera sjálfbærasta og samþættasta svæði heims árið 2030.
Yfirlýsingin var undirrituð í Reykjavík í dag en Ísland gegnir nú formennsku í Norrænu ráðherranefndinni. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, og Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra voru viðstaddir fundinn.
Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins.
„Stafrænar lausnir hafa hingað til ekki endilega hentað fötluðu fólki eða staðið því til boða. Þessu vilja ráðherrarnir breyta. Í yfirlýsingunni undirstrika þeir að aðgengi allra komi okkur öllum til góða,“ kemur fram í tilkynningunni.
Í tilkynningunni er haft eftir Guðmundi Inga að með þessu sé undirstrikað frumkvæði að norrænu samstarfi til að efla stafræna þróun og fyrirbyggja að fatlað fólk sitji eftir í stafrænum heimi.
Á fundinum í dag var einnig rætt um mögulegar aðgerðir til að auka atvinnuþátttöku hjá ungu fólki, auk þess sem fjallað var um félagslega einangrun ungs fólks og andlega vanlíðan