Mikil vonbrigði og horfir til stjórnvalda

Kristján Þórður Snæbjarnarson, forseti ASÍ.
Kristján Þórður Snæbjarnarson, forseti ASÍ. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Mín fyrstu viðbrögð eru gríðarleg vonbrigði og ég tel að það hefði þurft að leita annarra leiða til að bregðast við verðbólgunni,“ segir Kristján Þórður Snæbjörnsson, forseti Alþýðusambandsins, í kjölfar tilkynningar Seðlabankans um hækkun stýrivaxta um eitt prósentustig.

Hann segist óttast það að þessi ákvörðun muni auka enn á verðbólguna og hvetur stjórnvöld til að stíga inn í með aðgerðum. Þrír hópar séu sérstaklega viðkvæmir fyrir á þessum tímapunkti.

Gætu gert skattkerfisbreytingar

„Það eru tekjulág heimili, það eru skuldsett heimili sem nýlega hafa keypt fasteignir á háu verði og svo fjölskyldur á leigumarkaði. Þetta eru þeir hópar sem eru viðkvæmastir fyrir þessari ákvörðun í ljósi þess að verðbólgan er að koma illan við þennan hóp,“ segir Kristján.  

Hann tekur fram að stjórnvöld gætu gert skattkerfisbreytingar þannig að þessi hópur yrði varinn samhliða því að hækka skatta á tekjuhæstu tíundina. 

„Eins væri hægt að hækka vaxtabætur, barnabætur og sértækar bætur til handa hópum til þeirra hópa sem þurfa á þessu að halda. Þetta þurfa ekki að vera almennar aðgerðir, heldur aðgerðir sem nýtast þessum hópi,“ segir Kristján.

Merki gefin um að í lagi sé að hækka gjaldskrá 

Þá segir Kristján jafnframt að opinber gögn sýni að fyrirtæki hafi hækkað gjaldskrá umfram það sem þörf er á. Afkoma þeirra í hlutfalli við launakostnað hafi hækkað að undanförnu.

„Það þarf að draga úr þessum verðbólguvæntingum sem er verið að búa til. Það er búið að kasta fram ákveðnum merkjum að það sé allt í lagi að hækka gjaldskrá og það þurfa allir að taka saman höndum um það að taka á verðbólgunni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert