Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra fór með opnunarerindi á ráðstefnu um alþjóðasamstarf og þjóðaröryggi í Hörpu í dag.
Þórdís ræddi meðal annars viðbrögð Íslands við innrás Rússa í Úkraínu og segir Ísland hafi brugðist við í krafti stærðar sinnar.
Hún segist fagna endurskoðun á þjóðaröryggisstefnu landsins en mælir gegn því að hrófla of mikið í henni.
Þórdís tók undir með forsætisráðherra um mikilvægi þess að láta rödd sína heyrast, sérstaklega fyrir hönd þeirra radda sem ekki fá að heyrast.
Þórdís Kolbrún lýsti kynnum sínum af því fólki og þeim sögum sem hún og forsætisráðherra fengu að heyra í heimsókn sinni. Þá lýsti hún reynslusögu manns sem var einn íbúa í Bórodíanka, bæ í um 50 kílómetra fjarlægð frá miðborg Kænugarðs, sem mátti þola árásir Rússa.
Rússar réðust inn í bæinn til að greiða leið sína og vopna sinna inn í Kænugarð, en beinn vegur liggur þar á milli. Talið var að rússneskir hermenn myndu brjóta sér leið gegnum bæinn á örstundu, en svo varð ekki.
Íbúar Bórodíanka, karlar og konur á öllum aldri, hlóðu upp varnarmúra og börðust gegn fleiri en þúsund rússneskum hermönnum í meira en 36 klukkustundir.
„Úkraína neitaði að gefast upp: „Rússneski floti, þið megið fokka ykkur“ endurómaði um samfélagið,“ sagði ráðherrann og bætti strax við að að orðbragðið væri vissulega ekki hennar eigið, enda ekki ráðherra sæmandi, en að boðskapurinn væri engu að síður mikilvægur.
Þórdís Kolbrún minnti á það í erindi sínu að Ísland hefði verið á meðal fyrstu þjóða til að bregðast við í upphafi innrásarinnar, þrátt fyrir að stuðningur hefði vissulega verið með öðrum hætti en annarra þjóða, sem hefðu aukið varnarviðbúnað.
„Við brugðumst við í krafti smæðar okkar,“ sagði Þórdís Kolbrún.
„Stjórnvöld borguðu fyrir flutning hergagna til Úkraínu. Þarna gátum við gert eitthvað sem skipti máli. Þetta voru ekki skriðdrekar en þessu þurfti á að halda.“
Íslensk stjórnvöld báru kostnað af og sáu um flutninga á hergögnum milli Evrópuríkja og Úkraínu, en Þórdís Kolbrún lagði þá tillögu fram í fyrra að Ísland sem herlaust ríki gæti lagt landinu lið hernaðarlega á þennan hátt.
„Við vorum að hjálpa venjulegu fólki sem neyddust til að breytast í hetjur til að verjast árásum Rússa.“
Varðandi gildandi þjóðaröryggisstefnu Íslands sagði Þórdís Kolbrún endilega mega endurskoða hana og að hún taki þeirri umræðu fagnandi.
Margt komi til greina en að fyrst og fremst beri okkur skylda til að virða og rækta alþjóðasambönd okkar og vera verðugir bandamenn NATO og Bandaríkjanna, sem veiti Íslandi hervernd.
Þórdís kvaðst hins vegar líta á þjóðaröryggisstefnu Íslands eins og stjórnarskrá.
„Hún er stóru línurnar yfir grundvallaratriði. Svo er allt hitt. Það getur allt átt heima undir þeim línum.“
Þá segir Þórdís að það eigi ekki endilega að hrófla of mikið við henni enda eigi hún aðeins að kveða á um undirstöðuatriði, sem stjórnvöld geti notað að leiðarljósi til að tryggja öryggi borgara.
„Staða Íslands er öfundsverð en allt í heiminum er hverfult,“ bætti hún við.
Hún minntist þess þegar kalda stríðinu lauk og vonir voru bundnar um að hörmungar sem þessar myndu ekki endurtaka sig.
„Minni kynslóð var bókstaflega lofað að svona myndi ekki gerast aftur. Þess vegna verðum við að standa vörð um þjóðaröryggi“