Áhrif af styttingu vinnuvikunnar hjá lögreglunni eru ekki komin fram að fullu, að því er fram kemur í svari Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra við fyrirspurn Þorbjargar Sigríðar Gunnlaugsdóttur þingmanns Viðreisnar um starfandi lögreglumenn.
Einn liður fyrirspurnar Þorbjargar snerist um það hvort stytting vinnuvikunnar hefði haft áhrif á lögregluna í landinu hvað varðar þörf fyrir fjölda starfandi lögreglumanna sem og á kostnað.
„Samkvæmt upplýsingum frá ríkislögreglustjóra er reiknað með að verkefnið Betri vinnutími í vaktavinnu komi til með að hafa þau áhrif að fjölga þurfi um 50-70 menntaða lögreglumenn. Fjöldinn færi eftir vaktaskipulagi, við hvaða fjölda er miðað í upphafi og hvernig breytingin hefur áhrif á röðun á vaktir sem hafa mismunandi vægi í vinnuskilum,“ segir í svari dómsmálaráðherra.
„Ríkislögreglustjóri hefur ekki metið endanlegan kostnað er varðar styttingu vinnuvikunnar enda er hann líklega ekki kominn fram að fullu. Kostnaðarmat fjármála- og efnahagsráðuneytisins var um 700 millj. kr. en í kostnaðaráætlunum ríkislögreglustjóra var reiknað með um 900 millj. kr,“ segir þar enn fremur.