„Það var eiginlega eina markmiðið“

Vignir Vatnar Stefánsson á EM 2023 í Serbíu fyrr í …
Vignir Vatnar Stefánsson á EM 2023 í Serbíu fyrr í mánuðinum. Ljósmynd/EICC2023

Vignir Vatnar Stefánsson kom sá og sigraði á Opna Arandjelovac-mótinu í skák sem lauk í Serbíu í dag. Vignir fékk sjö vinninga af níu mögulegum og nældi sér um leið í stórmeistaratitil en á mótinu í Serbíu var töluvert af stórmeisturum héðan og þaðan úr heiminum.

Hann er sextándi íslenski stórmeistarinn í skák og sá næst yngsti til að ná þessum stóra áfanga. Aðeins Helgi Áss Grétarsson náði þeim áfanga yngri að árum þegar hann varð heimsmeistari unglinga árið 1994, þá 17 ára gamall og fékk stórmeistaratitil að launum.

Hjörvar Steinn Grétarsson var sá næst yngsti en Vignir Vatnar skaut honum ref fyrir rass í dag.

„Það er svo æðislegt að ná þessum áfanga á undan Hjörvari. Það var eiginlega eina markmiðið mitt,“ segir Vignir en hann náði áfanganum rúmum þremur mánuðum yngri en Hjörvar Steinn.

Vignir Vatnar og Hjörvar Steinn eigast við. Vignir Vatnar skaut …
Vignir Vatnar og Hjörvar Steinn eigast við. Vignir Vatnar skaut Hjörvari Steini ref fyrir rass sem næst yngsti stórmeistari Íslands í skák í dag. Ljósmynd/Skáksamband Íslands

Hvað þurfa menn að gera til að ná stórmeistaratitli?

„Maður þarf að ná 2.500 ELO-stigum, sem ég gerði í mars á síðasta ári og svo þurfa menn að sýna stórmeistarastyrkleika á þremur mótum eða tefla eins og leikmaður með 2.600 ELO-stig.“

Vignir á von á að hljóta stórmeistaratitilinn í apríl.

„Alþjóðaskáksambandið þarf að samþykkja titilinn en ég held að það verði í apríl. Þá kannski fæ ég blómvönd eða eitthvað.“

„Stefni á að feta í hans fótspor“

Vignir á ekki langt að sækja skákhæfileikana en langalangafi hans, Pétur Zóphóníasson, var fyrsti Íslandsmeistarinn í skák árið 1913 og hélt hann Íslandsmeistaratigninni til ársins 2018.

„Ég stefni á að vera Íslandsmeistari í maí og feta þar með í hans fótspor,“ segir Vignir sem byrjaði að tefla sex ára gamall.

Pabbi hans var mikill skákáhugamaður og fór Vignir bráðungur að fylgjast með pabba sínum tefla.

„Það leið ekki á löngu þar til maður var farinn að segja honum til. Svo lærði maður eiginlega allt í Faxafeninu, segir hann og vísar þar til Skákskóla Íslands og Taflfélags Reykjavíkur.

Carlsen breytti leiknum

Talið berst að fyrirmyndum og það stendur ekki á svörum frá Vigni.

„Carlsen er geggjuð fyrirmynd. Það er svo stutt síðan við áttum heimsmeistara í skák sem var svo „introvert“ að hann gat ekki einu sinni talað við konur.

Síðan kemur Carlsen, alveg hinn póllinn, hefur verið módel og ég veit ekki hvað og hvað. Hann hefur breytt leiknum og sýnir að það er hægt að vera eðlilegur þó maður tefli sem er bara frábært,“ segir hann og heldur áfram.

Þarf að spyrja Friðrik að því

„Svo hefur Friðrik Ólafsson, okkar fyrsti stórmeistari, verið fyrirmynd mín síðan ég var pjakkur. Hann náði inn á topp 10 í heiminum á sínum tíma.

Náði hann að tefla við langalangafa þinn?

„Það reyndar er eitthvað sem ég hef aldrei hugsað út í en ég þarf að spyrja Friðrik að því næst þegar ég sé hann það er enginn spurning,“ segir Vignir Vatnar Stefánsson að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert