„Við sjáum einfaldlega ekki allt fyrir“

Katrín Jakobsdóttir ávarpaði ráðstefnugesti í dag.
Katrín Jakobsdóttir ávarpaði ráðstefnugesti í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Katrín Jak­obs­dótt­ir for­sæt­is­ráðherra seg­ir mik­il­vægt að Ísland beiti rödd sinni til að styðja Úkraínu og lagði áherslu á mik­il­vægi þess að vera viðbúin því ófyr­ir­sjá­an­lega, í opn­un­ar­ávarpi sínu á ráðstefnu um alþjóðasam­skipti og þjóðarör­yggi í Norður­ljósa­saln­um í Hörpu í dag.

Þar er fjallað um breyt­ing­ar á alþjóðavett­vangi, sem hafa í för með sér nýj­ar sam­fé­lags­leg­ar og alþjóðleg­ar áskor­an­ir á sviði þjóðarör­ygg­is.

„Ég fylgi öll­um liðum þjóðarör­ygg­is­stefnu Íslands

Í ávarp­inu lagði Katrín áherslu á þýðingu alþjóðasam­starfs fyr­ir þjóðarör­yggi Íslands og sam­vinnu þjóðar­inn­ar við alþjóðasam­tök eins og At­lands­hafs­banda­lagið, nú sér­stak­lega vegna inn­rás­ar Rússa í Úkraínu sem ógn­ar friði og stöðug­leika á alþjóðavísu. 

Hún kvaðst hafa verið gagn­rýnd fyr­ir af­stöðu sína gagn­vart banda­lag­inu, en sam­kvæmt stefnu Vinstri grænna er hreyf­ing­in ekki hlynnt hernaðarbanda­lag­inu. 

„Ég fylgi öll­um liðum þjóðarör­ygg­is­stefnu Íslands,“ sagði Katrín varðandi gagn­rýn­ina. 

Katrín studdi á síðasta ári stækk­un banda­lags­ins á leiðtoga­fundi NATO, með því að veita aðild­ar­um­sókn Svíþjóðar og Finn­lands stuðning sinn. Þjóðirn­ar tvær sóttu báðar um aðild að banda­lag­inu í kjöl­far inn­rás­ar­inn­ar í Úkraínu.

Þá nefndi hún einnig mik­il­vægi þess að ein­blína ekki aðeins á þær ógn­ir sem steðji að núna held­ur einnig vera viðbúin ófyr­ir­sjá­an­leg­um ógn­um framtíðar­inn­ar.

„Við sjá­um ein­fald­lega ekki allt fyr­ir,“ bætti hún við.

Því sé mik­il­vægt að búa að viðbragðsáætl­un­um hvað varðar fæðuör­yggi, birgðir og heilsu, sem byggi á gild­um Norður­landaþjóðanna um sam­fé­lags­legt ör­yggi og ábyrgð. 

„Þið hafið rödd, beitið henni“

Ný­verið heim­sótti Katrín Úkraínu í sam­fylgd ut­an­rík­is­ráðherra Íslands, Þór­dís­ar Kol­brún­ar Reyk­fjörð Gylfa­dótt­ur.

„Mér líður eins og það sé langt síðan að við vor­um þar, því þannig get­ur það verið þegar maður sér svona hluti,“ sagði Katrín.

Hún lýsti sjá­an­leg­um af­leiðing­um inn­rás­ar Rússa á sam­fé­lagið, „auðn og eyðilegg­ingu þar sem venju­legt fólk hafði ný­lega búið“. 

Einnig lýsti hún sam­tali sínu og Þór­dís­ar Kol­brún­ar við for­seta Úkraínu, Volodimír Selenskí, en hann lagði áherslu á það við ráðherr­ana tvo að Ísland beitti rödd sinni í alþjóðasam­starfi til að leggja Úkraínu lið.

„Ég veit að þið eruð ekki stór þjóð, þið eruð ekki með her og þið eruð ekki að fara að senda okk­ur skriðdreka. En þið hafið rödd, beitið henni,“ hafði Katrín eft­ir Selenskí.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert