Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir mikilvægt að Ísland beiti rödd sinni til að styðja Úkraínu og lagði áherslu á mikilvægi þess að vera viðbúin því ófyrirsjáanlega, í opnunarávarpi sínu á ráðstefnu um alþjóðasamskipti og þjóðaröryggi í Norðurljósasalnum í Hörpu í dag.
Þar er fjallað um breytingar á alþjóðavettvangi, sem hafa í för með sér nýjar samfélagslegar og alþjóðlegar áskoranir á sviði þjóðaröryggis.
Í ávarpinu lagði Katrín áherslu á þýðingu alþjóðasamstarfs fyrir þjóðaröryggi Íslands og samvinnu þjóðarinnar við alþjóðasamtök eins og Atlandshafsbandalagið, nú sérstaklega vegna innrásar Rússa í Úkraínu sem ógnar friði og stöðugleika á alþjóðavísu.
Hún kvaðst hafa verið gagnrýnd fyrir afstöðu sína gagnvart bandalaginu, en samkvæmt stefnu Vinstri grænna er hreyfingin ekki hlynnt hernaðarbandalaginu.
„Ég fylgi öllum liðum þjóðaröryggisstefnu Íslands,“ sagði Katrín varðandi gagnrýnina.
Katrín studdi á síðasta ári stækkun bandalagsins á leiðtogafundi NATO, með því að veita aðildarumsókn Svíþjóðar og Finnlands stuðning sinn. Þjóðirnar tvær sóttu báðar um aðild að bandalaginu í kjölfar innrásarinnar í Úkraínu.
Þá nefndi hún einnig mikilvægi þess að einblína ekki aðeins á þær ógnir sem steðji að núna heldur einnig vera viðbúin ófyrirsjáanlegum ógnum framtíðarinnar.
„Við sjáum einfaldlega ekki allt fyrir,“ bætti hún við.
Því sé mikilvægt að búa að viðbragðsáætlunum hvað varðar fæðuöryggi, birgðir og heilsu, sem byggi á gildum Norðurlandaþjóðanna um samfélagslegt öryggi og ábyrgð.
Nýverið heimsótti Katrín Úkraínu í samfylgd utanríkisráðherra Íslands, Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur.
„Mér líður eins og það sé langt síðan að við vorum þar, því þannig getur það verið þegar maður sér svona hluti,“ sagði Katrín.
Hún lýsti sjáanlegum afleiðingum innrásar Rússa á samfélagið, „auðn og eyðileggingu þar sem venjulegt fólk hafði nýlega búið“.
Einnig lýsti hún samtali sínu og Þórdísar Kolbrúnar við forseta Úkraínu, Volodimír Selenskí, en hann lagði áherslu á það við ráðherrana tvo að Ísland beitti rödd sinni í alþjóðasamstarfi til að leggja Úkraínu lið.
„Ég veit að þið eruð ekki stór þjóð, þið eruð ekki með her og þið eruð ekki að fara að senda okkur skriðdreka. En þið hafið rödd, beitið henni,“ hafði Katrín eftir Selenskí.