Samþykkt var á aðalfundi Landsbankans í dag að breyta heimilisfangi höfuðstöðva bankans í Reykjastræti 6. Þannig lýkur um 99 ára samfelldri sögu bankans að Austurstræti 11.
Landsbankinn hóf starfsemi árið 1886 í Bankastræti en flutti að Austurstræti 11 árið 1898.
Í miðbæjarbrunanum vorið 1915 skemmdist Landsbankahúsið mikið og stóðu hlaðnir útveggirnir einir uppi.
Bankinn flutti starfsemi sína til bráðabirgða í nýbyggt pósthús handan götunnar og svo í nýbyggt hús, Austurstræti 16, sem nú hýsir meðal annars veitingastaðinn Apótekið.
Gamla húsið við Austurstræti 11 var endurreist á árunum 1921 til 1924 og flutti bankinn starfsemi sína aftur í húsið 1. mars árið 1924.
Nú lýkur sögu bankans í þessu sögufræga húsi en Landsbankahúsið við Austurstræti 11 var friðað af menntamálaráðherra árið 1991.