Undanfarna daga hafa litlir skjálftar riðið yfir suð-suðvestur af Bláfjöllum, norðan Selvogs. Segja má svo að hrina smáskjálfta hafi hafist þar í morgun og svo haldið áfram síðdegis og í kvöld.
Auk þessara hræringa varð skjálfti af stærðinni 2,7 við Bláfjöll klukkan 15.20 í dag, skammt frá Þríhnúkagíg.
„Þetta er örlítið meiri virkni en venjulega, en við erum ekki með einhverjar rosa áhyggjur,“ segir Bjarki Friis, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.
Hann segir að skyldu skjálftarnir fara yfir 3 að stærð gæfi það efni til að fylgjast enn betur með svæðinu. Eins og er þykir þó ekki ástæða til að hafa áhyggjur.