Meðan nágrannalöndin keppast um að banna opinberum aðilum að nota kínverska smáforritið TikTok virðist sem íslenskir þingmenn megi nota forritið áfram, að minnsta kosti enn sem komið er.
Forritið, sem er vinsælt um heim allan, hefur verið bannað í vinnusímum utanríkisráðuneytisins hér á landi og ræðir nú fulltrúadeild bandaríska þingsins um að banna það alfarið vestanhafs.
En hvaða þingmenn nota forritið? mbl.is náði tali af tveimur yngstu þingmönnum landsins og voru þeir inntir álits.
Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, þingmaður Framsóknar og jafnframt yngsti kjördæmakjörni þingmaður sögunnar, segist nota forritið við og við.
„Við vorum nokkur að grínast með að gera opinbert leynifélag þingmanna á TikTok,“ segir Lilja og kveðst vita um að minnsta kosti sex aðra þingmenn með aðgang, enginn noti það mikið, sumir séu hættir og það sé aðeins í persónulegum símum.
„Það eru nokkrir með appið en enginn sem er að pósta í pólitískum tilgangi. Ég held að sá eini sem hafi póstað svona hafi verið Ásmundur,“ segir hún og á þar við Ásmund Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra.
„Nei, ég er allt of taktlaus í það,“ svarar Lilja og hlær, spurð hvort hún hafi aldrei tekið upp á því að taka sig upp að dansa og setja á netið, líkt og tíðkast.
„En ég nota þetta mikið fyrir hannyrðir,“ bætir hún við. „Ég lærði að sauma af TikTok.“
En yrði erfitt að missa forritið úr lífi sínu, yrði það bannað þingmönnum?
Lilja svarar: „Að vissu leyti jú, þetta yrði högg fyrir mig en á sama tíma blessun, því þetta er mikill tímaþjófur.“ Þannig yrði það lán í óláni.
„En almennt hefur þetta ekki mikinn pólitískan tilgang. Þetta er frítímaforrit hjá mér.“
Lenya Rún Taha Karim, varaþingmaður Pírata og sú yngsta sem tekið hefur sæti á þessu kjörtímabili, kveðst ekki nota TikTok, hún hafi ekki dottið á þann vagn á sínum tíma.
„Ég nota ekki TikTok, ég náði aldrei að koma mér í það jafnvel þótt ég reyndi,“ segir Lenya.
Spurð hvort Píratar hafi einhvern tímann nýtt sér forritið í pólitískum tilgangi segir hún sig ráma í að það hafi verið reynt fyrir síðustu alþingiskosningar en án árangurs.
„Þingflokkur Pírata reyndi held ég að koma sér aðeins inn á forritið í kosningunum en það tókst ekki. Kannski er það bara fyrir bestu.“
Kveðst hún ekki þekkja neinn þingmann sem sé á forritinu og telur að íslenskir þingmenn leiti meira í eldri og kunnuglegri miðla, á borð við Facebook og Instagram.
„Af því sem ég hef séð þá eru þeir yngri meira í þessu. Auðvitað fólk á mínum aldri líka, þá þrítugsaldri, en ég held að það sé breytilegt eftir aldurshópum hvort þau séu bara að skoða eða hvort þau séu líka að pósta myndböndum.“
Um hvort banna ætti forritið í vinnusímum þingmanna, líkt og hefur tíðkast í nágrannalöndunum, svarar Lenya:
„Út frá upplýsingaöryggissjónarmiðum er nauðsynlegt að taka samtalið um hvaða forrit eru örugg til notkunar og hvaða forrit eru það ekki.
Ég er enn þá á því að TikTok sé svipað batterí, hvað varðar gagnaöflun, og Facebook og Instagram. Í stað þess að banna eitt forrit held ég að öll lönd þurfi að setja heildstætt regluverk um gagnaöflun og upplýsingaöryggi sem nær utan um erlend forrit.“
Lenya kveðst ekki hlynnt boðum og bönnum, heldur telji frekar regluverk og lagaumhverfi um gagna- og upplýsingaöflun samfélagsmiðlaforrita lykilatriði.
„Ég held það þurfi bara að fara í stórátak. Kannski að Evrópuráðið og þingið taki frumkvæðið og hefji þessa vinnu innan Evrópu, ef hún er ekki nú þegar hafin.“