Nýjar ljósmyndir sýna þá eyðileggingu sem orðið hefur í kjölfar sinubrunans í nágrenni við Straumsvík. Talið er að svæðið sem hefur brunnið síðan í gær nái líklega um einn til einn og hálfan kílómetra í suður og sé um 100 til 200 metra breitt.
Eggert Jóhannesson, ljósmyndari mbl.is sem myndaði svæðið í dag, sagði svæðið svipa til þess að „vera á tunglinu“.
Slökkvilið fylgist enn grannt með brunanum og bíður eftir að eldurinn nálgist varnarlínur svo hægt sé að slökkva hann.
„Þetta brennur bara í rólegheitunum í átt að varnarlínunum, við erum bara með menn þarna á svæðinu til þess að fylgjast með,“ segir Þorsteinn Gunnarsson, varðstjóri í aðgerðastjórn slökkviliðsins en fjórir slökkviliðsmenn vakta nú sinubrunann, og hafa gert síðan í morgun.
„[Við erum] bara að bíða eftir að eldurinn nálgist þessar varnarlínur, svo við getum slökkt þetta. En hvenær og hvort það gerist, hvort þetta slokkni bara af sjálfsdáðum – það verður bara að koma í ljós.“