Forvörn fyrir næstu kynslóð eftir sjálfsvíg

Andrea Walraven Thissen og Guðrún Jóna Guðlaugsdóttir.
Andrea Walraven Thissen og Guðrún Jóna Guðlaugsdóttir.

Eftirmeðferð fyrir aðstandendur einstaklinga sem stytta sér aldur er mikilvægur liður í sjálfsvígsforvörnum. Þetta kom fram á nor­rænni ráðstefnu um geðheil­brigðismál sem hófst í Hörpu í gær.

Fyrirlestrar ráðstefnunnar snertu á mörgum málefnum sem varða geðheilbrigði, þar á meðal jöfnu mikilvægi eftirvarna og forvarna í sjálfsvígsúrræðum. 

38% aðstandenda upplifa sjálfsvígshugsanir 

Andrea Walraven Thissen, sérfræðingur í eftirmeðferð við sjálfsvíg (e. postvention), greindi frá reynslu sinni úr starfi sem viðbragðsaðili og skipuleggjandi í neyðaraðstoð fyrir sjálfsvígstilfelli í Þýskalandi. Neyðarlínan þar í landi býður upp á að tengja einstaklinga við sjálfsvígsneyðarlínu rétt eins og hún tengir fólk við lögreglu og sjúkra- og slökkvilið.  

Thissen lagði áherslu á að forvarnir og eftirmeðferð gangi hönd í hönd og vanmeta ekki áhrif sem sjálfsvíg getur haft á aðstandendur og aðra í kringum einstakling sem fellur fyrir eigin hendi. Að sögn Thissen hafa 38% aðstandenda eða viðbragðsaðila í sjálfsvígstilvikum upplifað sjálfsvígshugsanir í kjölfarið.

Fordómar endurspeglast í tungumáli

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur lýst eftirmeðferð fyrir aðstandendur og aðra tengda einstaklingum, sem hafa fallið fyrir eigin hendi, sem gríðarlega mikilvægum lið í forvörnum gegn sjálfsvígum.

Að sögn Thissen er mikilvægt að kynna sér hvernig megi veita aðstandendum stuðning við sjálfsvígsmissi, en slæmur eða óupplýstur stuðningur geti oft gert illt verra. 

Hún minnir á að heilinn virki öðruvísi undir álagi og undirstrikar mikilvægi þess að ræða við aðstandendur á rólegum nótum, útskýra hvað sé að gerast og valdefla þá í aðstæðum þar sem margir upplifa sig valdlausa. 

Einnig bendir Thissen á að fordómar varðandi sjálfsvíg endurspeglist t.d. í orðavali eins og „að fremja sjálfsmorð“ því bæði „fremja“ og „morð“ vísi til glæps og auki þar með skömmina sem oft er í kringum sjálfsvíg, bæði fyrir aðstandendur og þá sem eru í sjálfsvígshugleiðingum en finnst þeir ekki geta leitað sér aðstoðar. 

Aðgerðaáætlun í gangi frá 2018

Guðrún Jóna Guðlaugsdóttir, verkefnastjóri fyrir sjálfsvígsforvarnir hjá heilbrigðisráðuneytinu, var einnig með fyrirlestur varðandi sjálfsvígsforvarnir og lýsti forvörnum, inngripum og eftirmeðferð sjálfsvígs sem hringrás.

„Eftirmeðferð fyrir þá sem hafa upplifað sjálfsvíg er forvörn fyrir næstu kynslóð,“ sagði Guðrún Jóna. 

Hún greindi einnig frá sjálfsvígsforvörnum hérlendis en aðgerðaáætlun til að fækka sjálfsvígum var samþykkt af heilbrigðisráðherra 2018 en í kjölfarið var stofnaður verkhópur til að vinna að málinu.

Af 54 aðgerðum áætlunarinnar er tíu lokið og flest verkefni hafa verið hafin. Þrjár aðgerðir hafa forgang eins og er en það er að þróa samræmt sjálfsvígsáhættumat, samræmd inngrip eftir sjálfsvígstilraunir og eftirmeðferð fyrir aðstandendur í kjölfar sjálfsvígs.

Ef þú ert að upp­lifa sjálfs­vígs­hugs­an­ir er hjálp­arsími Rauða kross­ins, 1717, op­inn all­an sól­ar­hring­inn. Einnig er net­spjall Rauða kross­ins, 1717.is, opið all­an sól­ar­hring­inn. Píeta-sam­tök­in veita ókeyp­is ráðgjöf í síma 552-2218. Á net­spjalli á Heilsu­vera.is er einnig hægt að ráðfæra sig við hjúkr­un­ar­fræðing um næstu skref. Ef þú ert í bráðri hættu hringdu í 112.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert