„Það er ljóst að það var verið að bræða þakpappa ofan á þakið. Menn voru sem betur farnir af svæðinu, en það hefur greinilega læst sig logi í einangrun eða eitthvað slíkt og kviknað í út frá því,“ segir Örn Kjartansson, framkvæmdastjóri Framkvæmdafélagsins Eskiáss, sem byggir nýjar íbúðir í húsinu við Eskiás 3.
Gaskútar sprungu á þaki nýbyggingarinnar síðdegis í dag og þeyttust fleiri tugi metra ofan af þakinu.
„Þá hefur eldur læst sig í gaskúta sem sprungu með látum eins og fólk hefur séð en blessunarlega slapp þetta fyrir horn hvað varðar að það var ekki tjón á fólki.“
Örn segir það hafa verið skelfilegt að sjá þetta og skelfilegt að hafa orðið fyrir þessu en hann segir hvorki aðstæður hafa skapast til að meta hvað gerðist í raun og veru né til að meta tjónið að svo stöddu.
„Við erum bara ánægðastir að það hafi ekki orðið tjón á fólki eða meiri skemmdir í kring. Það býr fólk í 35 íbúðum í Eskiási 1, þarna í húsinu við hliðina á umræddu húsi. Ég get trúað því að fólk sé skelkað eftir þetta.“
Vinna stóð yfir við að klæða húsið að utan og þakið að sögn Arnar og síðan stóð til að hefja það að setja innréttingar inn í húsið.
„Nú þarf bara að meta í framhaldinu hvernig það fer,“ segir Örn.