Jónsi í Sigur Rós hafði sigur í skattamáli

Jón Þór Birg­is­son, söngv­ari Sig­ur Rós­ar, mætti fyrir héraðsdóm árið …
Jón Þór Birg­is­son, söngv­ari Sig­ur Rós­ar, mætti fyrir héraðsdóm árið 2019 ásamt Georgi Holm, bassa­leik­ari sveit­ar­inn­ar. mbl.is/Eggert

Landsréttur vísaði í dag frá héraðsdómi skattamáli gegn Jóni Þór Birgissyni, betur þekktum sem Jónsa í Sigur Rós. Jafnframt sýknaði dómurinn Gunnar Þór Ásgeirsson, endurskoðanda Jóns og hljómsveitarinnar.

Þetta var eina málið sem eftir stóð af samtals fjórum sem ákæruvaldið höfðaði gegn liðsmönnum Sigur Rósar vegna skattamála þeirra. Voru þeir allir sýknaðir í Héraðsdómi Reykjavíkur í maí 2021. Ákæruvaldið áfrýjaði málunum, en féll svo frá áfrýjun þriggja mála, gagnvart þeim Orra Páli Dýrasyni, Georgi Holm og Kjartani Sveinssyni. Eftir stóð þetta mál gegn Jóni og Gunnari.

Í dómi Landsréttar er vísað til þess að ríkisskattstjóri gerði mat á aðkomu Jóns að félaginu Frakki slf., og tekjum þess og komist að þeirri niðurstöðu að atvik málsins hefðu ekki stofnað til persónulegrar skattskyldu Jóns og þar með refsiábyrgðar í formi álags á vanframtaldar tekjur. Hafði ríkisskattstjóri þó áður boðað aðra niðurstöðu sem var í samræmi við niðurstöðu skattrannsóknarstjóra og öndverð seinna mati.

Leggur Landsréttur umræddan úrskurð til grundvallar og segir að þar hafi verið leyst úr efnishlið málsins um að Jón skyldi ekki sæta endurákvörðun og álags vegna hennar.

Varðandi Gunnar kemst Landsréttur að þeirri niðurstöðu að ekki hafi þótt sannað að hann hafi verið daglegur stjórnandi Frakks sem byggt væri á í ákærunni og er hann því sýknaður. . Þá hefði hann ekki á annan hátt farið með fyrirsvar félagsins þannig að til álita gæti komið að telja  hann  refsiábyrgan  sem  aðalmann. Tekið er fram að þó að hann hafi séð um framtalsgerð fyrir Frakk hafi þótt varhugavert að slá því föstu að hann hafi með liðsinni í orði eða verki átt þátt í því að brot yrðu framin.

Máli Sig­ur Rós­ar var vísað frá héraðsdómi á sín­um tíma vegna sjón­ar­miða um tvö­falda refs­ingu. Málið fór eft­ir það til Lands­rétt­ar sem taldi að héraðsdóm­ur þyrfti að taka málið til efn­is­legr­ar meðferðar. Var meðal ann­ars vísað til þess að í máli fjór­menn­ing­anna hefðu þeir ekki sætt álagi vegna stórs hluta þeirra tekna sem þeir voru ákærðir fyr­ir að hafa van­talið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert