Landsréttur sneri í dag við dómi Héraðsdóms Reykjavíkur og sýknaði mótmælanda sem tók þátt í mótmælum samtakanna No Borders við Alþingishúsið 19. mars 2019. Hafði hann áður verið sakfelldur fyrir að óhlýðnast fyrirmælum lögreglu, en sýknaður af því að hafa hindrað lögreglumenn í störfum.
Mótmælin, sem voru á vegum samtakanna No Borders, voru til að mótmæla brottvísunum umsækjenda um alþjóðlega vernd og stóðu mótmælendur fyrir inngangi Alþingishússins. Mómælandinn var ákærður fyrir að hafa ekki hlýtt fyrirmælum lögreglu er hún sagði mótmælendum að fara frá inngangi Alþingis.
Landsréttur taldi hins vegar út frá myndbandsupptöku af atvikinu að ekki yrði slegið föstu að mótmælandinn hefði óhlýðnast fyrirmælum lögreglum um að færa sig frá aðalinngangi Alþingis né að hann hefði, í kjölfar þess að lögregla handtók annan mótmælanda, hindrað lögreglumenn að störfum með því að stíga í veg fyrir lögreglumennina þegar þeir voru að færa hinn handtekna að lögreglubifreið.
Myndbandsupptakan, sem er sex mínútur og 36 sekúndur að lengd, sýndi atvikin við aðalinngang Alþingis og segir í dómi Landsréttar að mótmælandinn hafi verið auðþekkjanlegur.
„Fyrst sést til ákærða á myndskeiðinu þegar af því er liðin ein mínúta og 18 sekúndur. Hann sést þá koma gangandi og stilla sér upp fyrir framan inngang Alþingis. Þegar ákærði kemur í mynd eru liðnar 22 sekúndur frá því lögregla gaf mótmælendum síðast fyrirmæli um að víkja frá dyrum Alþingis. Lögregla ítrekar síðan þau fyrirmæli þegar ein mínúta og 40 sekúndur eru liðnar af myndskeiðinu og í beinu framhaldi, eða um sex sekúndum síðar, stjakar lögreglumaður við ákærða sem við það hrekkur aftur á bak og frá innganginum,“ er atvikum lýst í dóminum.
„Í ljósi þess tíma sem samkvæmt framansögðu var liðinn frá því að lögregla gaf mótmælendum fyrirmæli um að víkja frá dyrum Alþingis og þar til ákærði sést koma gangandi að innganginum á myndskeiðinu verður að telja ósannað að ákærði hafi heyrt þau fyrirmæli,“ segir svo í dómnum.
Vísað er til þess að lögreglan hafi 22 sekúndum síðar ítrekað fyrirmælin og í beinu framhaldi stuggað við mótmælandanum. Tók hann sér ekki stöðu að nýju fyrir framan innganginn eftir að lögregla bægði honum frá, öfugt við annan mótmælanda sem það gerði. Var sá handtekinn og færður í burtu. Segir dómurinn ekki hægt að slá því föstu út frá þessu að ákærði hafi óhlýðnast fyrirmælum um að færa sig frá aðalinngangi Alþingis.