Viðar Guðjónsson
Héraðsdómur Reykjavíkur hefur ómerkt ummæli Páls Vilhjálmssonar um að Þórður Snær Júlíusson, annar ritstjóri Heimildarinnar og Arnar Þór Ingólfsson, blaðamaður sama miðils, hafi átt beina eða óbeina aðild að byrlun Páls skipstjóra Steingrímssonar og stuldi á síma hans“ í tengslum við umfjöllun um „skæruliðadeild“ Samherja.
Þá þarf Páll að greiða þeim 300 þúsund krónur í miskabætur auk þess að greiða hverjum fyrir sig 750 þúsund krónur í málskostnað. Páll var kærður fyrir ærumeiðandi aðdróttanir.
Þórður Snær er fyrrverandi ritstjóri Kjarnans og starfandi ritstjóri Heimildarinnar. Sagði hann fyrir aðalmeðferð að hann hefði ákveðið að höfða málið gegn Páli Vilhjálmssyni bloggara sökum þess að hann hafi í lengri tíma sett fram alls kyns staðhæfingar um Þórð og kollega hans sem ekki byggi á raunveruleika.
Þórður segir að um sé að ræða tugi staðhæfinga og samsæriskenninga sem Páll hafi sett fram um hans störf. Hins vegar hafi hann ákveðið að nóg væri komið þegar hann var ásakaður í pistli Páls um að hafa framið hegningarlagabrot þegar hann átti að hafa stolið síma Páls Steingrímssonar skipstjóra og byrlað honum.
Arnar Þór Ingólfsson, sagði við aðalmeðferð að hann hafi verið hissa að lesa ummæli Páls um að hann hefði byrlað manni og stolið síma hans.