Vikulegur fjöldi greininga á staðfestri inflúensu hefur ekki verið meiri frá áramótum.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá embætti landlæknis.
Meirihluti greininga nú er af inflúensustofni B eins og verið hefur undanfarnar vikur.
Í þessari seinni inflúensubylgju vetrarins hafa hlutfallslega fleiri greinst í aldurshópnum 5-14 ára samanborið við inflúensutoppinn fyrr í vetur. Þá greinast færri eldri einstaklingar núna með staðfesta inflúensu en fyrir og um áramótin.
Innlögnum á Landspítala vegna inflúensu fjölgaði í síðustu viku samanborið við undanfarnar sjö vikur. Eldri einstaklingar voru þar í meirihluta.
Í heild greindust 56 með staðfesta inflúensu í síðustu viku, 47 með inflúensustofn B, 5 með inflúensustofn A(H3) og 4 með stofn A(H1) pdm09.
Staðfest inflúensa var tæpur helmingur greindra öndunarfæraveira í síðustu viku.