„Ég held að flestir sérfræðinganna hallist að því að þessar hærri sviðmyndir þurfi til að ná orkuskiptunum og það þurfi kannski allt að tvöfalda orkuframleiðslu í landinu, og þá er ég að tala um rafmagnið,“ segir Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets, í samtali við mbl.is.
Vorfundur Landsnets var haldinn í gær í Hörpu en fundurinn bar yfirskriftina „Fjúka orkuskiptin á haf út?“
Guðmundur segir að mikilvægasta verkefnið sé að klára byggðalínuna ásamt Suðurnesjalínu 2, þar sem þar séu mestu takmarkanirnar í kerfinu. Þá séu einnig mikilvæg smærri verkefni um allt land.
Á fundinum var skortur á heitu vatni og rafmagni mikið til umræðu.
„Eins og við horfum á þetta, þá liggja fyrir úr grænbókinni sviðsmyndir en ekki beint orkuspár. Þannig að við verðum svolítið að meta hvert stefnir,“ segir Guðmundur og bætir við að ef tvöfalda þurfi raforkuvinnslu á næstu árum mun nýting vindorku gegna lykilhlutverki.
Hann segir að tæknilega séð, eins og kerfið sé í dag, sé það svo sterkt að um helmingur orkunnar, um 2500 MW, geti komið frá vindorku.
„Og þá er spurningin, hvernig á að nýta vindorkuna sem er mjög breytileg? Því þarf að vera jafnvægi milli framleiðslu og notkunar á hverjum tíma,“ segir Guðmundur.
„Ef maður horfir á orkuskiptin og þörfina vegna þeirra, þá er svo heppilegt að stór hluti af þeim er að framleiða til dæmis rafeldsneyti – breyta rafmagni í eldsneyti – og slíkri framleiðslu er oft á tíðum hægt að hagræða til þess að mæta sveiflukenndum orkugjafa.“
Einnig sé hægt að staðsetja vindorkuver í mörgum landshlutum. „Þá er hægt að auka nýtingu á vindorkunni enn frekar vegna þess að það er kannski oft logn hérna fyrir sunnan en vindur fyrir vestan eða norðan, og svo öfugt. Þannig að það er hægt að ná ákveðinni samnýtingu í vindmyllunum ef við byggjum þetta upp með skynsömum hætti.“
Guðmundur segir að takist vel til þá sé hægt að nýta vindorkuna til þess að ná markmiðum orkuskiptanna og gera hana að þriðju stoðinni í orkuvinnslukerfi Íslendinga.
Spurður hvort Íslendingar þurfi að hafa áhyggjur af hækkandi orkuverði segir Guðmundur að fólk þurfi að vera meðvitað um að orkuauðlindir séu takmarkaðar.
„Við þurfum að breyta hegðun okkar í samræmi við það,“ segir hann og bætir við að erfitt sé að spá um verðþróunina.
„Það sem skiptir okkur miklu máli er að auka vitundina hjá öllum. Það þurfum við að gera með því að breyta þeim viðskiptaháttum sem við erum með í orkunni og setja upp svona markaði sem að gera orkuverðið gagnsætt gagnvart okkur. Og jafnframt að gefa okkur möguleika á því að spara orkuna og fara vel með hana með því að geta tekið ákvarðanir,“ segir Guðmundur og nefnir sem dæmi að hlaða rafmagnsbíl, sem komi til með að kosta eitthvað í framtíðinni, þegar orkuverðið er lægst.
„Með því að auka alla þessa vitund, þá mun það leiða til mun betri orkunotkunar og sparnaðar hjá fólki. Það er gríðarlega mikilvægt sjónarmið að taka inn í myndina.“
Hvernig horfir Landsnet á þróun loftslagsmála og hlutverk sitt í þeim málum?
„Okkar hlutverk er að flytja orku um allt land og tryggja að öryggi og gæði í orkuflutningunum sé viðunandi. Við erum ekki í að reisa virkjanir eða selja orku. Okkur er líka ætlað það hlutverk að þróa viðskiptahættina fyrir kaup og sölu á rafmagni í heilsölu í samráði við stjórnvöld og gegna ákveðnu leiðandi hlutverki þar. Gagnsær og skilvirkur orkumarkaður mun verða lykillinn að því að ná markmiðum orkuskiptanna. Með aukinni kostnaðarvitund og breytilegum verðum eftir aðstæðum geta notendur tekið ákvarðir um að hagræða í orkukaupum eða hreinlega spara hana. Sem fyrirtæki þá viljum við styðja við þessa þróun,“ segir Guðmundur.
„Og tryggja það að þessi vél, sem mun drífa áfram orkuskiptin, gangi sem best,“ segir forstjórinn að lokum.