Veðurstofan hefur gefið út gular viðvaranir fyrir þrjá landshluta á morgun, vegna suðaustanáttar og snjókomu.
Tekur sú fyrsta gildi klukkan 6 árdegis og gildir fyrir Suðurland, til klukkan 17. Er varað við snjókomu og litlu skyggni á köflum, einkum undir Eyjafjöllum og í Fljótshlíð.
Er veðrið talið geta valdið erfiðleikum í samgöngum.
Önnur viðvörun tekur gildi klukkan 11 á Suðausturlandi og gildir til miðnættis.
Er þar sömuleiðis varað við snjókomu en einnig skafrenningi. Lítið skyggni gæti orðið á köflum og samgöngur gætu truflast.
Varað er við hinu sama á Austfjörðum, frá klukkan 21 og fram til klukkan 6 að morgni mánudags.