Á fundi Heilbrigðisnefndar Garðabæjar, Hafnarfjarðar, Kópavogs, Mosfellsbæjar og Seltjarnarneskaupstaðar (HEF) fyrr í mánuðinum var harmað það andvara- og aðgerðarleysi sem stjórnendur Costco sýndu vegna mengunarslyss á bensínstöð fyrirtækisins.
Segir í fundargerð nefndarinnar að stjórnendur Costco hafi hunsað ítrekaðar aðvaranir frá eftirlitskerfum um að leki væri frá stöðinni.
Alls runnu 112 þúsund lítrar af díselolíu í fráveitu Hafnarfjarðarbæjar frá 15.-30. desember 2022.
Framkvæmdastjóra HEF hefur verið falið að meta kostnað af tjóninu og umhverfistjón vegna lekans. Heilbrigðiseftirlitið tilkynnti Umhverfisstofnun um málið í samræmi við lög um umhverfisábyrgð og lög um varnir hafs og stranda.
Fylgst verður náið með svæðinu en mengunarslysið hafði veruleg áhrif á íbúa á svæðinu vegna lyktarmengunar.