Allt helgihald fellur niður í Siglufjarðarkirkju á morgun, jafnt barnastarf sem gospelmessa, upplýsti sr. Sigurður Ægisson sóknarprestur í vikunni. Önnur hurðin í útidyrum kirkjunnar gaf sig á miðvikudagsmorgun í miklu hvassvirði sem þá hafði gengið yfir bæinn sólarhringinn á undan.
Annar hurðarvængurinn skemmdist mikið, lagðist inn í anddyrið og læsingin er ónýt. Frekari skemmdir urðu ekki á kirkjunni, þar sem tjónið uppgötvaðist snemma um morguninn. Neglt var fyrir innganginn til bráðabirgða þar til varanleg viðgerð getur farið fram. Er þetta eini inngangurinn í kirkjuna.
„Hurðin er sennilega ónýt, enda komin til ára sinna. Jafngömul og kirkjan sem vígð var árið 1932. Líklega eru þetta skilaboð frá almættinu um að tími sé kominn á nýja hurð,“ segir Jón Andrjes Hinriksson, trésmiður og einn meðhjálpara kirkjunnar.
„Sem betur fer skemmdist ekkert meira í kirkjunni. Þetta er í annað sinn á fáum árum sem hurðin fýkur upp, en það hafa ekki orðið jafn miklar skemmdir og nú,“ segir Jón Andrjes. Kirkjuhurðirnar eru mikil smíð, tekkhurðir og 2,40 metrar á hæð.