Mikilvægt að fólk geri hreint fyrir sínum dyrum

Ingibjörg Dögg er annar ritstjóra miðilsins, sem varð til úr …
Ingibjörg Dögg er annar ritstjóra miðilsins, sem varð til úr samruna Stundarinnar og Kjarnans. Samsett mynd

Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir, annar ritstjóra Heimildarinnar, segir ritstjórn miðilsins taka missögn Eddu Falak um störf sín í Kaupmannahöfn alvarlega.

Hún telur þó mikilvægt að ekki verði dregið úr trúverðugleika þeirra kvenna sem hafa stigið fram í viðtölum Eddu.

Í samtali við mbl.is segir Ingibjörg það liggja fyrir að Edda hafi í gegnum nám sitt í Kaupmannahöfn „kynnst menningu“ þeirra fyrirtækja, sem hún hefur áður sagst hafa starfað hjá.

Greindi frá starfinu í Dagmálum

Edda hefur áður komið fram í helstu fjölmiðlum landsins og greint frá störfum sínum í banka í Kaupmannahöfn.

Í þætti Dagmála, sem birtist 21. maí 2021, greindi Edda frá því að hún hefði fengið að heyra frá samstarfsfélögum sínum, sem hefðu unnið með henni í virtum banka í Danmörku þar sem hún hefði verið í verðbréfamiðlun, að hún ætti ekki að vera birta myndir af sér fáklæddri.

Ekki hefði verið tekið jafn mikið mark á hennar skoðunum og annarra samstarfsfélaga hennar. Hlusta má á þáttinn hér.

Frosti Logason, fyrrverandi fjölmiðlamaður, vakti athygli á því að Edda hefði farið með rangt mál, þegar hún fullyrti að hún hefði unnið í virtum banka í Kaupmannahöfn. 

Tiltekin fyrirtæki á sviði fjármála

Edda tók viðtal við fyrrverandi kærustu Frosta í mars í fyrra.

Í viðtali lýsti hún andlegu ofbeldi af hálfu Frosta. Það leiddi til þess að hann fór í leyfi frá störfum.

Ritstjórn Heimildarinnar og Edda gáfu út yfirlýsingu vegna málsins í gær.

Þar kom fram að Edda hefði ekki greint rétt frá stöðu sinni „gagn­vart til­tekn­um fyrirtækjum á sviði fjármála“ þegar hún bjó í Dan­mörku og stundaði nám við Viðskiptaháskólann í Kaupmannahöfn.

Ekki var nánar greint frá eðli þessarar missagnar, en tekið var fram að Edda bæðist velvirðingar á henni.

Þótti rétt að biðjast afsökunar

Ingibjörg Dögg ræddi við mbl.is um málið.

Hvers vegna ákváðuð þið í ritstjórn Heimildarinnar að gefa þessa yfirlýsingu út?

„Það var verið að óska eftir svörum frá okkur. Við ákváðum að gefa þessa yfirlýsingu út vegna þess að okkur fannst rétt, sem fjölmiðill, að leita svara í þessu máli og að sannleikurinn kæmi fram. Það sem var rangt væri leiðrétt. Það væri gengist við því og beðist afsökunar. Það er eitthvað sem við leggjum áherslu á, að upplýsa mál, hvort sem það varðar okkur sjálf eða aðra.“

Sú gagnrýni hefur komið fram að það sé í raun mjög lítið í þessari yfirlýsingu. Hvað segir þú við því?

„Ég sá að það sat í fólki að við notuðum orðið missögn, en með því var alls ekki meiningin að gera lítið úr málinu eða alvarleika þess. Heldur var skilningur okkar á þessu orði, og er, ef þú flettir orðinu upp í orðabók, að það nær yfir ansi margt. Meðal annars þess sem þetta mál varðar. Þannig að það er ekki meining okkar að gera lítið úr málinu með neinum hætti,“ segir Ingibjörg og bætir við:

„Svo er þetta auðvitað starfsmannamál og það er spurning hversu langt stjórnendur ganga fram á opinberum vettvangi í að ræða mál einstakra starfsmanna í smáatriðum. Mér finnst við bera skyldur gagnvart okkar starfsfólki og mikilvægt að sýna öllum virðingu.“

Kynnst menningu fjármálafyrirtækja í gegnum námið

Varðandi þetta orð, missögn. Það hefur verið gagnrýnt að þið sögðuð ekki beint út lygar. Þegar ég fletti þessu orði upp í orðabók þá kemur lygi meðal annars upp. Er það í raun það sem þið meinið með þessu orði, að hún hafi logið til um starfsferil sinn í Danmörku?

„Það sem liggur fyrir í málinu er að hún var að stunda nám í Kaupmannahöfn þar sem hún var í tengslum við fjármálafyrirtæki. Þar kynntist hún menningu þessara fyrirtækja og þeim viðhorfum sem hún var að lýsa þegar hún var að tala um starfsferil sinn. Hún kynntist þessum viðhorfum sem snéru að því að hún gæti ekki verið tekin alvarlega á þessum vettvangi, ef hún væri að birta myndir af sér fáklæddri.“

Bætir Ingibjörg við að Edda hafi unnið samkvæmt ströngum kröfum Stundarinnar, nú Heimildarinnar, og því ekki rétt að draga viðtöl hennar við brotaþola í efa.

„Þetta eru ummæli sem hún lætur falla löngu áður en hún kemur inn á ritstjórn okkar og hún mun væntanlega sjálf útskýra þetta betur. Það sem hún hefur verið að gera í samstarfi við okkur áður, og svo núna inni á ritstjórn Heimildarinnar síðastliðinn mánuð, stenst vinnubrögð blaðamennskunnar,“ segir Ingibjörg.

Hún hefur verið að fylgja þessum reglum sem að við fylgjum. Þar eru gerðar mjög miklar kröfur varðandi efni sem er að fara út, sérstaklega svo viðkvæm mál þar sem trúverðugleiki brotaþola er undir.“

Menningarstríð og hætta

Ingibjörg segist einnig telja að nú hlakki í þeim sem séu andstæðir málstað Eddu.

„Það er þetta menningarstríð. Þeir sem eru andstæðir MeToo, þeir sem hafa hagsmuna að gæta eða hafa orðið undir með einhverjum hætti í þessari umræðu, vegna þess að þeir hafa gert eitthvað sem hefur verið afhjúpað og opinberað – það hlakkar svolítið í þeim núna vegna þess að hættan er sú að þetta verði notað til að draga úr trúverðugleika brotaþola. Mér finnst mikilvægt að það gerist ekki, vegna þess að við gerum miklar kröfur í þessum flóknu og erfiðu málum. Það er engin ástæða til að efast um það sem hefur komið fram,“ segir ritstjórinn.

„Það sem gerðist hérna er að maður sem á harma að hefna gagnvart Eddu Falak og Heimildinni, og hefur ráðið lögmann til að beita sér gegn Heimildinni, setur fram alls konar ásakanir á hendur Eddu Falak og kallar hana persónuleikaraskaða. Þetta er þessi andstæða við MeToo sem er að birtast.“

Krafa um fagleg vinnubrögð og heilindi

Rætt hefur verið um trúverðugleika miðilsins í heild. Sumir telja að dregið hafi verið úr honum þar sem það kemur í raun fram í yfirlýsingu ykkar, að hún hafi logið um fyrri störf í Kaupmannahöfn, án þess þó að þið notið orðið lygar. Hvað finnst þér um þessa gagnrýni, að með því að hafa hana í starfi sé verið að draga úr heildartrúverðugleika miðilsins?

„Við reynum að sýna það með verkum okkar hvað það er sem við stöndum fyrir. Við gerum kröfu um fagleg vinnubrögð og heilindi starfsmanna. Ef eitthvað ber út af er mikilvægt að fólk geri hreint fyrir sínum dyrum,“ segir Ingibjörg að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert