Of seint eftir tíu ár

Lina Hallberg segir íslenskukennslu fyrir útlendinga hér í miklu ólestri …
Lina Hallberg segir íslenskukennslu fyrir útlendinga hér í miklu ólestri og segir að stjórnvöld verði að bregðast við áður en það verður of seint. mbl.is/Ásdís

Lina Hallberg er svissneskur tannlæknir, fædd af sænskum foreldrum, sem flutti til Íslands 2016, en eiginmaður hennar er Íslendingur. Hún byrjaði strax að læra íslensku í þekktum tungumálaskóla en sá fljótt að með því að fara á námskeið sem í boði voru myndi hún aldrei ná tökum á tungumálinu. Hún endaði á að fara í þriggja ára háskólanám og talar nú málið reiprennandi. Lina segir hér margt sem mætti bæta til þess að útlendingar geti náð góðum tökum á málinu og hefur rannsakað málið í kjölinn. Hún er óþreytandi að senda tölvupósta á ráðamenn því hún telur að ef ekkert verði gert, myndist hér „gettó” þar sem útlendingar einangrist frá öðrum þjóðfélagsþegnum.

Galið að þurfa háskólanám

„Vandinn er hversu erfitt það er að læra íslensku á Íslandi og þá er það ekki tungumálið sjálft sem er vandamálið,“ segir Lina sem segir að hér eigi að vera kennd námskeið í íslensku fyrir útlendinga á níu stigum, en það sé alls ekki raunin.

„Ég nennti ekki að búa hérna án þess að tala íslensku þannig að ég ákvað að fara í háskólann. Það er alveg galið að maður þurfi að fara í háskólanám til að læra íslensku. Margir segja að það sé dýrt að kenna útlendingum íslensku en það er enn dýrara að senda mig í háskóla en á námskeið,“ segir Lina.

Gengur ekki upp

„Kerfið er vandamálið. Það pirrar mig svo að heyra sagt að útlendingar vilji ekki eða nenni ekki að læra íslensku. Enginn spyr af hverju við erum ekki að læra!“ segir hún og nefnir að á fyrstu fjórum námskeiðunum læri fólk grunninn í íslensku en vegna þess að ekki sé boðið upp á nógu mörg námskeið, nái fólk ekki að læra nógu mikið til að bjarga sér.

„Það er talið að það þurfi yfir þúsund klukkustundir til að ná tökum á málinu, en ríkið segir að samkvæmt námskrá séu í boði námskeið upp í 540 klukkustundir. En raunin er sú að sá skóli sem var með mest árið 2021, The Tin Can Factory, var með 435 tíma. Mímir var með 360,“ segir Lina.

Áhugasamir nemendur í tíma í Dósaverksmiðjunni koma frá ýmsum heimshornum.
Áhugasamir nemendur í tíma í Dósaverksmiðjunni koma frá ýmsum heimshornum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vantar meira fjármagn

„Grunnnámskráin gengur ekki upp,“ segir Lina og segir fólk gjarnan fara aftur á sömu grunnnámskeiðin og spyr hún sig hvers vegna svo sé.

„Hér þarf að gera námið að skyldu, vera með upplýsingatorg, búa til nýtt námsefni. Það þarf að setja meira fjármagn í íslensku sem annað mál. Ég er að böggast í ráðuneytunum og sendi þeim oft tölvupósta. Ég hef aldrei talað við manneskju þar sem er með þekkingu á þessum málaflokki þannig að enginn veit hvað ég er að tala um,“ segir Lina og segir að ef ekkert verði að gert komi það til með að kosta ríkið meira fé seinna meir vegna ýmissa vandamála sem fylgi því að hér komi til að með að búa stór hópur borgara sem ekki kann tungumálið. Hún nefnir að hér gæti samfélagið orðið eins og í Svíþjóð þar sem erlendir ríkisborgarar endi á að búa sér í „gettóum“ þar sem íslenska er ekki töluð.

Lina telur brýnt að leysa þessi mál strax.

„Eftir tíu ár verður orðið að seint að grípa inn í.“

Ítarlegt viðtal er við Linu í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka