„Við höfum ekki í annan tíma haft þjóðhöfðingja á skrifstofunni okkar og það benti eindregið til þess að Íslendingar ætluðu að leggja allt í sölurnar til að koma þessu samstarfi í kring. Á þessum tíma höfðu heldur ekki margir heyrt OpenAI getið enda var þetta áður en DALL-E og ChatGPT komu fram og margir eru farnir að kannast við nú.“
Þetta segir Anna Makanju, yfirmaður opinberrar stefnumótunar hjá bandaríska gervigreindarfyrirtækinu OpenAI.
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, og Lilja D. Alfreðsdóttir menntamálaráðherra, voru í íslensku sendinefndinni sem hélt utan til viðræðna við OpenAI fyrir tíu mánuðum ásamt forsvarsmönnum Almannaróms og Anna viðurkennir að það hafi verið áhrifamikið.
Eins og kunngjört var á dögunum þá er búið að velja íslensku, fyrsta tungumála, að ensku frátalinni, í þróunarfasa nýjustu útgáfu gervigreindar-mállíkansins GPT-4 en á því byggist samtalsgreindin ChatGPT sem OpenAI hefur þróað.
Anna kom hingað í stutta heimsókn í vikunni til að fylgja verkefninu eftir og ræða við forsvarsmenn Almannaróms, sem annast verkefnið okkar megin.
„OpenAI hefur sett sér það metnaðarfulla markmið að öflug gervigreind komi öllum að gagni,“ segir hún í samtali við Sunnudagsblaðið.
„Tali tæknin ekki tungumál viðkomandi segir það sig sjálft að áhrifin verða minni. Við höfðum heyrt um verkefnið hér á Íslandi sem sneri að gagnaöflun og öðrum mikilvægum þáttum sem liggja til grundvallar tækni af þessu tagi og að öll undirbúningsvinna væri vel á veg komin. Það vakti áhuga okkar og við sáum snemma flöt á samstarfi. Líkanið okkar virkar nú þegar vel þegar kemur að stærri tungumálunum en þetta var frábært tækifæri til að máta okkur við smærra tungumál eins og íslenskuna og styrkja þannig líkanið. Við erum þegar búin að læra heilmargt af þessu verkefni.“
Anna segir engum vafa undirorpið að önnur smærri tungumál komi til með að njóta góðs af samstarfinu þegar fram í sækir enda muni forvinna sem fram hefur farið hér á landi gagnast öðrum þjóðum sem ekki séu eins langt komnar í gagnaaöflun. Eins og fram hefur komið hafa 60 sérfræðingar á vegum Almannaróms unnið að því undanfarin fjögur ár að smíða téðar máltæknilausnir eða innviði.
„Nú er það okkar verkefni að finna út úr því hvernig aðrar þjóðir sem er umhugað um tungumál sitt geti nýtt sér þessa tækni,“ segir Anna.
Nánar er rætt við Önnu Makanju í Sunnudagsblaðinu um gervigreind og sitthvað fleira en hún er úkraínsk í aðra ættina og vann um tíma í Hvíta húsinu.