„Nú er líf og fjör í fjallinu, enda hundrað og tíu keppendur á aldrinum 12 til 15 ára sem taka þátt,“ segir Bryndís Haraldsdóttir, mótsstjóri Unglingameistaramóts Íslands í alpagreinum sem fram fer í Bláfjöllum nú um helgina.
„Keppendur koma víða að frá landinu, þetta eru hörkuduglegir krakkar sem æfa skíðaíþróttir af kappi hér á Reykjavíkursvæðinu, á Ísafirði, í Oddsskarði og Stafdal á Austurlandi, á Siglufirði, Ólafsfirði, Dalvík og Akureyri,“ segir Bryndís og bætir við að Skíðadeild Ármanns sé að halda mótið í fyrsta sinn núna.
„Breiðabilk hélt mótið hér fyrir sunnan fyrir nokkrum árum en mótið er haldið á hverju ári víða um land. Stemningin meðal krakkanna er rosalega góð, það er sól í fjallinu og þó við séum með lítið af snjó, þá erum við búin að gera gott úr þeim aðstæðum.“
Krakkarnir skíða ekki aðeins á mótinu, haldið var sundlaugarpartý fyrir þau í gærkvöldi í Laugardalslauginni og lokahóf og verðlaunaafhending verður í Laugardalshöllinni í kvöld fyrir alpatvíkeppni.
Keppt var í stórsvigi í gær, föstudag, í svigi í dag laugardag og á morgun sunnudag verður keppt í samhliðasvigi.
Fólk er hvatt til að koma og fylgjast með unga fólkinu keppa, þau renna sér af stað klukkan tíu á morgnana og klára um klukkan fjögur.