Engar bætur vegna friðlýsingar Jökulsár

Jökulsá á Fjöllum.
Jökulsá á Fjöllum. mbl.is/Sigurður Aðalsteinsson

Eigendur hluta af jörðinni Reykjahlíð fá ekki bætur vegna friðlýsingar á vatnasviði Jökulsár á Fjöllum árið 2019. Landsréttur sýknaði íslenska ríkið af bótakröfu eigenda jarðarinnar á föstudag og staðfesti þar með niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur.

Eigendurnir töldu sig hafa verið svipta rétti sínum til orkurannsókna og orkuvinnslu fallvatna, en samkvæmt auglýsingu umhverfis- og auðlindaráðherra um friðlýsinguna er orkuvinnsla fallvatna með uppsett rafafl 10 MW eða meira á vatnasviði Jökulsár á Fjöllum óheimil.

Matsnefnd eignarnámsbóta hafði komist að þeirri niðurstöðu að ekki væri hægt að ákvarða bætur vegna óvissu um fjárhagsleg áhrif friðlýsingarinnar á ætlaða framtíðarnýtingu á landsréttindum þeirra og hafnaði því bótakröfu.

Framtíðarnýting hvorki raunhæf né líkleg

Í úrskurði Landsréttar er rakið að samkvæmt lögum um náttúruvernd sé það skilyrði fyrir bótarétti að skerðing landsréttinda sé umfram það sem teljast má til almennra takmarkana eignarréttar.

Fyrir lá að vatnasviði Jökulsár á Fjöllum hafði árið 2013 verið skipað í verndarflokk og með því hefðu tækifæri eigendanna til að nýta landsréttindi sín til orkuöflunar verið takmörkuð.

Landsréttur féllst á þá niðurstöðu matsnefndarinnar að þegar til friðlýsingarinnar kom hefðu verið til staðar takmarkanir á landsréttindum eigenda jarðarinnar sem hefðu gert það að verkum að framtíðarnýting til orkuöflunar hefði hvorki verið raunhæf né líkleg.

Ekki var því fallist á að sú skerðing sem fólst í friðlýsingunni hefði falið í sér skerðingu landsréttinda umfram það sem teljast mætti til almennra takmarkana eignarréttar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert