Slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu var tilkynnt um þrjá gróðurelda í borginni. Slökkt hefur nú verið í þeim.
Að sögn Stefáns Kristinssonar, varðstjóra slökkviliðsins kviknaði meðal annars í smá gróðri milli Háaleitisbrautar og Síðumúla.
Var áhöfn eins slökkviliðsbíls send af stað til þess að ráða niðurlögum þess elds.
Viðstaddur blaðamaður náði tali af lögreglumanni á vettvangi. Taldi hann allar líkur á að um íkveikju væri að ræða.
„Þegar það kvikna sinueldar með svona tilviljunarkenndum hætti þá er mjög ólíklegt að það sé einhver sjálfkveikja, en við vitum ekkert meira.“