„Við fluttum hingað út 2008, ég var þá fjögurra ára,“ segir Róbert Ómarsson, kokkur á fransk-norska Michelin-veitingastaðnum Statholdergaarden í Ósló í Noregi, eða kokkanemi svo öllu sé haldið til haga, Róbert er á námssamningi þar á staðnum, skólabekkurinn að baki en nú er alvaran tekin við í hinu verklega því enginn verður óbarinn biskup svo sem alkunna er.
Pottar, pönnur og hráefnið sjálft virðast þó leika í höndum Róberts sem kominn er í úrslit í kokkakeppninni og sjónvarpsþættinum Masterchef-Unge talenter sem Nordisk film og TV framleiðir og sýndir eru meðal annars á Viaplay. Spennan magnast því sjálfur lokaþátturinn fer í loftið á fimmtudaginn þar sem sigurvegarinn verður afhjúpaður.
„Seinna árið í skólanum var ég að keppa, það var svona Noregsmeistaramót fyrir skólana,“ segir Róbert frá og þar hafi þeir félagarnir heyrt af Masterchef-keppninni. „Við veltum þessu fyrir okkur og hugsuðum af hverju ekki, prófum þetta bara,“ heldur hann áfram. Raunin varð svo að hinir heltust úr lestinni en Íslendingurinn hélt ótrauður áfram.
„Þetta voru þrjár vikur í Danmörku rétt fyrir sumarfríið í fyrra svo ég fór þangað,“ útskýrir Róbert en þar fór keppnin sjálf fram og þættirnir voru teknir upp. Þar með er löngu ráðið hver í raun fór með sigur af hólmi en lokaúrslitin eru auðvitað hernaðarleyndarmál þar til lokaþátturinn hefur verið sýndur og gefur Róbert ekki upp minnstu vísbendingu þar um.
„Þetta eru tíu þættir í heildina og Viaplay er alltaf einum þætti á undan svo úrslitin verða sýnd þar núna á fimmtudaginn en svo kemur þetta viku seinna í sjónvarpinu,“ segir kokkurinn ungi ábúðarfullur en hann var 17 ára gamall þegar hann háði keppnina í Kaupmannahöfn en er nú 18 ára.
Auk keppendanna sjálfra koma sérstakir gestir fram í hverjum þætti, hvort tveggja landskunnir norskir kokkar og kokkar sem skarað hafa fram úr í öðrum matreiðslukeppnum. Keppendur í þáttaröðinni eru eingöngu Norðmenn – Róbert telst Norðmaður á þessum vettvangi – en ástæðan fyrir upptökum í Danmörku er að Danir halda eins keppni og eiga upptökumyndver sniðið að henni.
Um eins konar útsláttarkeppni er að ræða og hófu tólf keppendur leik. „Í fyrsta þættinum var bara lítil keppni sem ekki var hægt að tapa í. Svo duttu tveir út í öðrum þætti og svo einn í hverjum þætti,“ útskýrir Róbert sem enn er með nú þegar aðeins lokaþátturinn á eftir að koma fyrir sjónir áhorfenda. Spyrjum að leikslokum.
Róbert á hálft annað ár eftir af námssamningi sínum á Statholdergaarden og kveðst óviss um hvað þá taki við. „Mig langar að líta eitthvað í kringum mig og prófa fleira,“ játar hann en fyrirkomulagið á Statholdergaarden er þannig að skipt er algjörlega um matseðil á sex vikna fresti í því fransk-norska þema sem er einkennismerki staðarins.
Róbert kveðst hafa áhuga á að reyna færni sína á fleiri Michelin-veitingastöðum að loknum samningi auk þess sem hann þyrsti í frekari keppnismennsku á sviði matargerðarinnar. „Mig langar að starfa á fleiri stöðum hérna í Noregi en líka í Svíþjóð, Danmörku og á Íslandi,“ segir Róbert sem er engan veginn viss um hvar hann hyggur á framtíðarbúsetu enda getur fólk með hans menntun, svo ekki sé talað um góðan árangur í matreiðslukeppnum, unnið víða um heim.