Lögreglan hefur horfið frá þeirri tilgátu að Ísland sé orðið millistopp þar sem fíkniefni hafa stutta viðkomu áður en þau eru flutt úr landi.
Tilgátan varð til eftir að stóra kókaínmálið og saltdreifaramálið komust upp.
Að sögn Gríms Grímssonar hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hefur í kjölfarið færst í vöxt að menn hafi verið gripnir í Leifsstöð með tiltölulega lítið magn. Þykir það gefa til kynna að eftirspurn sé eftir efnunum á markaði.
Hins vegar vekur athygli að verð á fíkniefnum hefur haldist stöðugt í einhvern tíma. Þykir slíkt bera með sér að á Íslandi sé samstarf á milli skipulagðra brotahópa sem stýri framboðinu hverju sinni.
Grímur segir að rannsóknardeildin hafi sett fram tilgátuna eftir fund á 100 kílóum af kókaíni sem falin voru inni í timbri og 117 kíló af amfetamínbasa í Saltdreifara.
„Þetta magn setti okkur í þá stöðu að við fórum að velta þessu fyrir okkur, að efnin væru ætluð til útflutnings. En við höfum frekar fjarlægst þessa tilgátu en þess í stað reynt að horfast í augu við það að markaðurinn á Íslandi er einfaldlega svona stór,“ segir Grímur.
Bætir hann því við að hann viti ekki til þess að nokkur hafi verið tekinn á leið úr landi með meira en neysluskammt.
Hann segir að í framhaldi af þessum fundum hafi fleiri verið teknir með fíkniefni í fórum sínum í Leifsstöð á leið til landsins.
„Það jókst töluvert að kollegar okkar á Suðurnesjum stöðvuðu burðardýr, sem þó voru með miklu minna magn, sem voru að koma þeim efnum inn á markað sem þurfti,“ segir Grímur.
Grímur segir að verð á fíkniefnum hafi haldist nær óbreytt í nokkur ár.
„Mín tilfinning er sú að markaðurinn sé töluvert þróaður og framboðinu stýrt inn á hann. Við erum að sjá það að þrátt fyrir að við höfum t.a.m. tekið 100 kíló af kókaíni þá hefur verðið haldist nær óbreytt. Þannig er þessi markaður eins og hver annar innflutningur. Ef gámurinn tapast þá er reynt að flytja með flugi,“ segir Grímur.
Aðspurður segir Grímur erfitt að skilgreina hvort hér á landi sé hægt að tala um að annað hvort hópur eða hópar standi að fíkniefnasölu.
„Þetta er skilgreiningaratriði. Raunverulega er það þannig að hóparnir eru blandaðir þannig að menn vinna með einhverjum einum einn daginn en einhverjum öðrum hinn daginn. Því get ég ímyndað mér að það sé töluvert samstarf á milli hópa. Svo hafa menn ólík hlutverk þannig að sumir eru t.d. að selja efni á meðan aðrir eru að þvætta fé,“ segir Grímur.
Hann segir að ef verð á markaði lækkaði hratt gæti það gefið til kynna átök á markaði.
Er þá í einhverjum skilningi jákvætt hve verð á fíkniefnum er stöðugt?
„Það eru þín orð,“ segir Grímur og hlær við.