Verður mér refsað næst?

Gígja Svavarsdóttir hjá Dósaverksmiðjunni býr alltaf við óvissu því hún …
Gígja Svavarsdóttir hjá Dósaverksmiðjunni býr alltaf við óvissu því hún veit aldrei hvaða styrk hún fái næst til að reka skólann sinn. mbl.is/Ásdís

Í Dósaverksmiðjunni er kennd íslenska fyrir útlendinga. Þar við stjórnvölinn er Gígja Svavarsdóttir sem kennt hefur útlendingum okkar ylhýra mál í 35 ár. Hún settist niður með blaðamanni til að ræða stöðuna í þessum málaflokki, hvað væri gott og hvað mætti betur fara.

Einn þriðji lærir vestrænt letur

Skólinn sem byrjaði í íbúð, flutti árið 2012 í Borgartúnið og er nú í Skeifunni 11B.

„Á síðasta ári vorum við með rúmlega 2700 nemendur á átta stigum en erum líka með talkúrsa á milli stiga. En það sem hefur verið að vaxa hraðast hjá okkur er kennsla í vestræna letrinu. Í hitteðfyrra var sá hópur einn fjórði af nemendum og í ár einn þriðji,“ segir Gígja og segir að það að kunna að lesa og skrifa vestrænt letur sé grundvöllur þess að geta lært íslensku.

„Þegar við byrjuðum á þessu var ekki til neitt námsefni og því þurftum við að byrja alveg frá grunni. En núna erum við með fimm stig bara í því að kenna vestræna letrið,“ segir hún.

„Við erum búin að vera í sjö ár í þróunar­vinnu við þetta og aldrei fengið krónu fyrir. Ég hef endalaust sótt um styrki, en fyrir fullorðinsfræðslu er ekki hægt að sækja um neina styrki fyrir námsefnisgerð. Það er allt merkt grunn- og framhaldsskólunum,“ segir Gígja.

„Þau eru svo að læra íslensku í leiðinni. Það er flott og metnaðarfullt starf sem búið er að vinna hérna,“ segir Gígja.

Hefð að Mímir fái hæstu styrkina

Kennsla í íslensku sem öðru máli heyrir nú undir félags- og vinnumarkaðsráðuneytið. Gígja nefnir að allir einkareknu skólarnir þurfi að sækja um í sjóð sem heitir: Íslenskukennsla fyrir útlendinga.

„Það er búið að vera óskiljanlegt hvernig hefur verið úthlutað úr þeim sjóði. Síðasta ár var ég með 2700 nemendur en fékk greitt fyrir 280. Alltaf þegar ég kvartaði við ráðuneytið var ég spurð: „Hvaða skóli viltu að fái minna svo þú fáir meira?“ Þannig var okkur alltaf stillt upp sem andstæðingum sem er mjög slæmt. Þegar ég stofnaði þennan skóla var mín meginhugsun sú að útlendingar hefðu val; bæði um aðferðir og nálgun og gætu þá skipt ef þau væru óánægð. En þetta virtist ekki vera hugsunin hjá ráðuneytunum,“ segir hún og segir kröfurnar fyrir styrknum einkennilegar.

„Það eina sem ég þurfti að skila voru tölurnar yfir nemendur en aldrei var spurt um gæði, þjálfun eða námsefnisgerð eins og hér er. Það er núna í fyrsta skipti býsna öflugt teymi í félags- og vinnumálaráðuneytinu og búið að auka í þennan málaflokk við úthlutanir því ég fékk núna styrk fyrir 1200 nemendur í stað 280. Svo veit maður aldrei hvað gerist svo. Eitt árið fékk ég aukaúthlutun en var refsað næst með lægri úthlutun. Ef þú veist ekki hvað þú ert með mikla peninga til umráða, hvernig áttu að geta rekið fyrirtækið? Ég er alltaf á bremsunni. Ég hef misst kennara af því ég vissi ekki hvort ég gæti fastráðið þá eða veitt þeim heila stöðu.“

Útlendingar vilja margir gjarnan ná tökum á íslensku en ekki …
Útlendingar vilja margir gjarnan ná tökum á íslensku en ekki eru nógu mörg námskeið til þess. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Er það rétt að Mímir fái alltaf hæstu styrkina?

„Já. Og þá hefur ráðuneytið vísað í það að það sé bara hefð. Það voru þarna augljós tengsl á milli ráðuneytis og Mímis lengi. Ég kvartaði formlega undan því. Þá var styrkurinn færður yfir til Rannís en eina sem gerðist var að Rannís tók á móti umsóknum, sendi þær í ráðuneytið og ráðuneytið úthlutaði og Rannís sagði frá. Maður gefst bara upp,“ segir hún.

„Þannig að Rannís, æðsta stig í rannsóknum sem heldur utan um alla helstu styrki og á að vinna svo faglega, vann faglega í öllu nema þessu. Þarna voru þau bara að senda tölvupósta fyrir ráðuneytið. Ég veit ekki til þess að þetta hafi breyst.“

Ítarlegt viðtal er við Gígju í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert