Eggert Skúlason
Árið 2022 var það stærsta í sögunni þegar kemur að málafjölda hjá Útlendingastofnun. Útlit fyrir þetta ár er að umsóknir verði enn fleiri og er búist við að allt að sex þúsund manns sæki hér um vernd eða hæli, samkvæmt spá stofnunarinnar.
Íris Kristinsdóttir, sviðstjóri verndarsviðs hjá stofnuninni er gestur Dagmála í dag. Hún segir að árið í fyrra hafi slegið öll met þegar kemur að umsóknum og allt útlit sé fyrir að þetta ár verði enn stærra þegar horft er til fjölda.
Afar umdeilt lagafrumvarp var samþykkt nýlega á Alþingi þar sem breytingar voru gerðar á útlendingalögum sem fjalla um regluverkið í kringum umsóknir af þessu tagi. Í þættinum fer Íris yfir hvað það er sem breytist þegar nýju lögin taka gildi.
Í því broti af viðtalinu sem fylgir þessari frétt ræðir Íris meðal annars hvaðan flestar umsóknir berast. Það þarf engum að koma á óvart að þar eru Úkraínumenn fjölmennastir enda að flýja stríðsástand sem varað hefur í meira en ár. Næstir koma svo Venesúelabúar og ræðir Íris þá stöðu. Fólk sem leitar verndar og kemur frá Venesúela þarf ekki áritun inn á Schengen svæðið og getur í raun valið sinn áfangastað. Fólk sem kemur frá landinu leitar einkum til Spánar, Ítalíu, Þýskalands og svo Íslands.
Dagmál eru aðgengileg fyrir áskrifendur Morgunblaðsins.