Fyrr í dag birtist á samfélagsmiðlum myndskeið sem sýndi karlmann við hraðbanka Landsbankans, en þar áttu að standa skilaboð þar sem tekið var fram að fjölmiðlakonan Edda Falak hefði aldrei starfað í Landsbankanum. Landsbankinn hefur sent frá sér fréttatilkynningu þar sem tekið er fram að umrætt myndskeið sé falsað og að slíkur texti hafi aldrei birst í hraðbanka Landsbankans.
„Okkur þykir miður að einhver sjái sér hag í að vega að umræddri manneskju með þessum ósmekklega hætti,“ segir í tilkynningu Landsbankans.
Í myndbandinu sést ónafngreindur karlmaður við útibú bankans í Grafarholti. Hann gengur svo að hraðbankanum og virðist þá sem standi „Edda Falak hefur aldrei starfað í þessum banka.“ Þar fyrir neðan stendur svo „Við erum betri saman,“ sem er slagorð sem Landsbankinn hefur notað í auglýsingaefni sínu.
Þegar rýnt er í myndin má meðal annars sjá að ekki er um sama letur að ræða í efri og neðri setningunni, auk þess sem hvíti bakgrunnurinn sem textinn situr á virðist nokkuð greinilega klipptur inn á skjámyndina.
Það virðist þó ekki hafa stöðvað fjölmarga að deila myndskeiðinu á samfélagsmiðlum.
Ljóst er að með myndbandinu er verið að vísa til orða Eddu sem hún lét falla í viðtölum við fjölmarga fjölmiðla þar sem hún greindi frá störfum sínum í banka í Kaupmannahöfn og kynbundnu áreiti þar. Í síðustu viku setti fjölmiðlamaðurinn Frosti Logason svo fram ásakanir þar sem hann sakaði Eddu um að hafa villt á sér heimildir og logið því til að hún hefði starfað hjá bankanum og í fjármáladeild lyfjafyrirtækis í Kaupmannahöfn.
Í kjölfarið sendi Edda og Heimildin, fjölmiðillinn þar sem Edda var síðast með þætti sína Eigin konur og mun í framhaldinu vera með nýja þætti, frá sér yfirlýsingu þar sem beðist var afsökunar á missögn Eddu. Kom þar fram að hún hefði ekki lýst með réttum hætti stöðu sinni hjá tilteknum fyrirtækjum. Hefur sú yfirlýsing hlotið nokkra gagnrýni, meðal annars fyrir að notast hafi verið við orðið missögn en ekki lygar.
Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir, annar ritstjóra Heimildarinnar, ræddi þann hluta við mbl.is í gær. Þar sagði hún meðal annars: „Ég sá að það sat í fólki að við notuðum orðið missögn, en með því var alls ekki meiningin að gera lítið úr málinu eða alvarleika þess. Heldur var skilningur okkar á þessu orði, og er, ef þú flettir orðinu upp í orðabók, að það nær yfir ansi margt. Meðal annars þess sem þetta mál varðar. Þannig að það er ekki meining okkar að gera lítið úr málinu með neinum hætti“ og í kjölfarið: „Það sem liggur fyrir í málinu er að hún var að stunda nám í Kaupmannahöfn þar sem hún var í tengslum við fjármálafyrirtæki. Þar kynntist hún menningu þessara fyrirtækja og þeim viðhorfum sem hún var að lýsa þegar hún var að tala um starfsferil sinn.“