Féllu úr að minnsta kosti þremur giljum

Grófar útlínur snjóflóðanna sem féllu í morgun miðað við upplýsingar …
Grófar útlínur snjóflóðanna sem féllu í morgun miðað við upplýsingar Veðurstofunnar sem liggja fyrir núna. Kort/Veðurstofa Íslands

Snjóflóðin í Nes­kaupstað í morg­un féllu úr að minnsta kosti þrem­ur gilj­um fyr­ir ofan byggðina.

Snjóflóð úr Miðstrand­ar­sk­arði og/​eða Klofagili féll skammt inn­an þétt­býl­is­ins. Þar rann flóðið meðfram leiðigarði og út í sjó, að því er Veður­stofa Íslands grein­ir frá.

Þá féll snjóflóð úr Nes­gili, ut­ar­lega í bæn­um, á nokk­ur íbúðar­hús við göt­urn­ar Star­mýri og Hrafns­mýri. Fólk sem var statt í þess­um hús­um bjargaðist án al­var­legra meiðsla.

Snjóflóð úr Bakkagili, sem er næsta gil utan við Nes­gil, stöðvaðist skammt ofan byggðar­inn­ar við Gauks­mýri.

Frá Neskaupstað.
Frá Nes­kaupstað. Ljós­mynd/​Lands­björg

Íbúðar­hús og at­vinnu­hús­næði rýmd 

Eft­ir að flóðin féllu voru mörg hús rýmd und­ir Nes- og Bakkagilj­um, og einnig at­vinnu­hús­næði á snjóflóðahættu­svæðum inn­an þétt­býl­is­ins. Í ör­ygg­is­skyni voru jafn­framt öll hús í efstu húsaröðum und­ir varn­ar­görðum í Nes­kaupstað rýmd. Það er jafn­an gert í al­var­leg­um snjóflóðahrin­um þar sem varn­argarðar hafa verið reist­ir.

Hús voru einnig rýmd á Seyðis­firði en eng­ar frétt­ir hafa borist af snjóflóðum þaðan.

Minnk­andi úr­koma í dag

Spáð er minnk­andi úr­komu í dag og norðaustanátt og ætti að vera orðið úr­komu­laust í kvöld. Óvíst er á þessu stigi hversu lengi rým­ing­in verður í gildi.

„Ekki hef­ur sést til hlíðar­inn­ar milli flóðanna en lík­legt er að ein­hver flóð hafi einnig fallið þar. Stoðvirki hafa verið reist í hluta upp­taka­svæða í Tröllagilj­um og Drangagili, en flóð kunna að hafa fallið í hlíðinni neðan stoðvirkj­anna og í gilj­un­um sjálf­um þar sem ekki eru stoðvirki,“ seg­ir í til­kynn­ing­unni.

„Á næstu dög­um verða um­merki snjóflóða í hlíðinni könnuð til þess að afla upp­lýs­inga um snjóflóð sem kunna að hafa fallið ofan varn­argarða og kanna aðstæður í upp­taksvæðum hlíðar­inn­ar. Einnig verða könnuð um­merki snjóflóðsins sem leiðigarður inn­an við þétt­býlið beindi til sjáv­ar til þess að at­huga hversu hátt það rann upp á garðinn,“ seg­ir þar einnig.

Ljós­mynd/​Lands­björg

Fleiri varn­ar­virki reist á næstu árum

Varn­ar­virki hafa verið reist í Nes­kaupstað fyr­ir byggðina neðan hættu­leg­ustu snjóflóðafar­vega hlíðar­inn­ar, þ.e. neðan Tröllagilja og Drangagils, og einnig neðan Urðar­botns sem er þar á milli.

Einnig hafa varn­ar­virki verið hönnuð fyr­ir byggðina und­ir Nes­gili og Bakkagili, þar sem snjóflóðin féllu nú, og verða þau reist á næstu árum.

Und­ir Nes­gili og Bakkagili stend­ur byggðin fjær fjall­inu en inn­ar í bæn­um. Þar þurfa því stærri flóð að falla til að skapa hættu í byggðinni held­ur en áður en varn­ar­virki voru reist ofan þeirra svæða.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert
Loka