Framlög ríkisins til Bláskógabyggðar munu lækka um 96,3% verði frumvarp um breytingar á Jöfnunarsjóði sveitarfélaga að lögum.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar gerir verulegar athugasemdir við drög að frumvarpinu í umsögn sveitastjórnarinnar sem mbl.is fékk senda í dag.
Þar segir að verði frumvarpið að lögum muni framlög til sveitarfélagsins lækka um 145,9 milljónir króna eða um 96,3%.
Stafar lækkunin af niðurfellingu fasteignaskattsframlags, sem sveitarstjórnin mótmælir að verði gert.
Áherslu frumvarpsins raktar
Í umsögn sveitarstjórnar Bláskógabyggðar eru megináherslur á frumvarpsdrögunum raktar í sex liðum eins og sjá má hér að neðan:
- Harðlega er mótmælt áformum um að fella niður fasteignaskattsframlagið. Því var ætlað að jafna tekjutap sveitarfélaga á landsbyggðinni sem stafaði af tiltekinni kerfisbreytingu. Áhrifa kerfisbreytingarinnar gætir enn og því ekki ástæða til niðurfellingar.
- Markmið um stuðning við fjölkjarnasveitarfélög með flóknar útgjaldaþarfir nær ekki fram að ganga, miðað við þá lækkun framlaga sem fjölkjarnasveitarfélagið Bláskógabyggð sér fram á.
- Markmið um hvata til sameiningar er ekki til staðar í tilfelli Bláskógabyggðar, þar sem sameining við nágrannasveitarfélög myndi fela í sér umtalsverða lækkun framlaga eða að þau féllu alveg niður.
- Markmið um sjálfbærni: Bláskógabyggð verður ekki sjálfbært sveitarfélag útfrá viðmiðum EFS ef breytingarnar ná fram að ganga.
- Markmið um byggðaframlög: Sú aðgerð að fella niður fasteignaskattsframlagið er ein og sér andstæð markmiðum um framlög á grundvelli byggðasjónarmiða. Gerðar eru athugasemdir við höfuðstaðarálag.
- Markmið um að framlög sjóðsins spegli útgjaldaþörf: Bláskógabyggð telur að fasteignaskattstekjur vegna frístundahúsa séu í reynd ofmetnar við útreikninga á tekjum pr íbúa þar sem ekki sé tekið neitt tillit til þess kostnaðar (útgjaldaþarfar) sem fylgir því að afla þeirra, umfram kostnað við að afla annarra tekna.