„Það er búið að skoða og fara yfir möguleg eldsupptök,“ segir Örn Kjartansson, framkvæmdastjóri Framkvæmdafélagsins Eskiáss, um eldinn sem varð í Eskiási í Garðabænum á föstudag en allt tiltækt slökkvilið á höfuðborgarsvæðinu var kallað út til að slökkva eldinn.
Örn segir að tryggingafélag sé búið að vera að greina tjónið en ekki hafi verið gefið út tjónsmat. Hann býst við niðurstöðum eftir helgi.
„Tjónið var ekki verulegt. Þetta var fyrst og fremst þessi hætta og ef það hefði ekki sprungið þessi kútur þá hefði þetta verið óverulegur eldur sem hefði verið slökktur fljótt,“ segir Örn. Enn sé óvíst hver upptök eldsins hafi verið.
„Það leikur grunur á því að það hafi orðið eftir glóð í hólkum sem var verið að vinna með hálftíma áður þarna uppi á þaki. Það var verið að brenna niður tjörupappír og þá getur glóð læst sig í eitthvað sem menn sjá ekki, sem síðan magnast upp og læsir sig í efnið í kring. Það er langlíklegasta ástæðan,“ segir Örn.
Hann segir að menn hafi verið að taka saman eftir vinnudaginn þegar eldurinn kom upp. Verktakinn, Tambi ehf., sé traustur og hafi starfað frá árinu 2006.
„Þarna voru nokkrar rúllur af pappír sem átti að nota næst og tveir kútar þarna í kring. Glóðin hefur læst sig í ruslið og kveikt í pappanum sem var þar og þaðan beint í kútana,“ segir Örn.
„Þetta er óheppilegt slys sem verður og eitt leiðir af öðru. Menn eru aðallega að skoða hvort halda ætti kútum frá efninu og öðru slíku í lok dags til að minnka líkurnar á að þetta gerist aftur.“