Slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu barst tilkynning um klukkan hálf fjögur í nótt um eld í Víkurskóla í Grafarvogi.
Að sögn varðstjóra hafði töluverður eldur kviknað í einni skólastofu og leikur grunur á að um íkveikju hafi verið að ræða. Það er nú í verkahring lögreglu að staðfesta eldsupptök.
Slökkviliðsmenn frá þremur stöðvum voru sendir á staðinn. Úðakerfi skólans fór í gang og tók það um tvo tíma að slökkva eldinn og hreinsa upp vatn.
Í gærkvöldi bárust tilkynningar um þrjá gróðurelda í borginni, við Sprengisand, við Háaleitisbraut og Mörk.
Að sögn varðstjóra gekk vel að slökkva eldanna en einnig eru allar líkur á að um íkveikju hafi verið að ræða.