„Að geta fengið svona hús og boðið mínum nánustu með mér er frábært,“ segir Helgi Rúnar Bragason sem glímir við fjórða stigs krabbamein í ennisholum og koki.
Helgi er nú á leið til Tenerife og kemur til með að gista í húsi Davíðs Kristinssonar og eiginkonu hans, Evu Óskar Elíasardóttur, sem auglýstu fyrir skömmu ókeypis gistingu fyrir fjölskyldu með langveikt barn eða sem glímir við krabbamein.
Úr varð að Helgi Rúnar, 46 ára Akureyringur ættaður frá Grindavík, fékk gistinguna og fer til Tenerife hinn 17. apríl næstkomandi ásamt sínum nánustu. Hann er þessa dagana í geislameðferð og hlakkar til að safna kröftum í sólinni.
„Þetta er svo sannarlega kærkomið. Sérstaklega þar sem krabbameinið mitt er í ennisholunum og ég á erfitt með öndun. Það léttir svo mikið á að vera úti í hita,“ segir Helgi Rúnar.
„Þetta breytir öllu að finna fyrir náungakærleik og að til sé fólk sem er tilbúið að láta gott af sér leiða,“ segir Hildur Ýr Kristinsdóttir, eiginkona Helga, sem var honum til halds og trausts í viðtalinu þar sem Helgi á erfitt með að tjá sig fullkomlega.
„Að finna stuðning úr svona mörgum áttum er ómetanlegt. Ekki bara í formi kveðja, símtala og faðmlaga heldur einnig að finna fyrir því að hjálpin er til staðar á mörgum stöðum,“ bætir Helgi við.
Helgi greindist með illkynja krabbamein í hálsi, við tungurót og eitlum, bæði vinstra megin og hægra megin í júní árið 2021. Hann fór þá í gegnum 35 geislameðferðir, 6 lyfjameðferðir og aðgerð til að fjarlægja meinið.
Hann hélt að tekist hefði að uppræta meinið en þá greindist nýtt mein í nefholi sem er ólæknandi að mati læknateymis. Reynt hefur með lyfjameðferðum að minnka það eða halda í skefjum án árangurs og 20. mars hóf hann geislameðferð til að reyna að létta á óþægilegum þrengslum. Í kjölfarið mun hann hefja lyfjameðferð á ný sem vonast er til að skili betri árangri.
Helgi er ættaður úr Grindavik og spilaði körfubolta til 25-26 ára aldurs en þurfti að hætta vegna meiðsla. Hann náði þó að afreka það að verða bikarmeistari með sínu liði. Þá hefur hann í gegnum tíðina stundað golf af miklum móð og vann t.a.m. holukeppni Golfklúbbs Akureyrar árið 2012.
Þá er hann bróðir körfuknattleikskappans Guðmundar Bragasonar sem er mörgum íþróttaáhugamönnum kunnur og frændi Jóns Axels Guðmundssonar landsliðsmanns í körfubolta.
Hildur Ýr segir að krabbameinið sem hrjáir Helga verði sífellt algengara hjá karlmönnum og heitir flöguþekjukrabbamein. „Þeir segja að þetta tengist HPV-veirunni sem hingað til hefur verið meira tengd stelpum,“ segir Hildur Ýr.
Helgi og Hildur eiga saman eina dóttur sem er 19 ára og heitir Karen Lind Helgadóttir. Hún æfir körfubolta af krafti með meistaraflokki með Þór á Akureyri.
Má segja að hún hafi fetað í fótspor pabba?
„Já, það má segja það. Ég þjálfaði hana lengi og meðal annars í meistaraflokki,“ segir Helgi sem hefur af og til þjálfað körfuboltaiðkendur í gegnum tíðina. Í meistaraflokknum hjá Þór eru nú t.a.m. nokkrir leikmenn sem Helgi hefur þjálfað. Þá er Helgi framkvæmdastjóri Íþróttabandalags Akureyrar og segist hann hafa fundið fyrir miklum stuðningi frá íþróttahreyfingunni. „Íþróttahreyfingin er búin að styðja mig í einu og öllu. Það eru allir að styðja mann og vilja gefa af sér,“ segir Helgi.
Hvernig horfir þú til framtíðarinnar?
„Ég er bara með mottóið sem ég er með inni á Mottumars átakinu: „Staying alive“, að reyna að halda mér á lífi og að reyna að hafa það sem best. Eins að búa til eins mikinn tíma og minningar með mínum nánustu og vinum og vandamönnum eins og ég get. Lífið er núna og maður verður að lifa því eins vel og maður getur,“ segir Helgi að lokum.
Helgi hvetur alla til að leggja Mottumarsátakinu lið.