Ökumanns leitað sem ók á pilt á hlaupahjóli

Lögreglan hvetur ökumanninn til að gefa sig fram.
Lögreglan hvetur ökumanninn til að gefa sig fram. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu leitar ökumanns bifreiðar sem ók á ungan pilt á rafmagnshlaupahjóli á gangbraut á Neshaga í Reykjavík.

Slysið varð hjá Melaskóla síðastliðinn föstudagsmorgun um klukkan 8.50.

Fyrrnefndur ökumaður nam staðar og átti orðaskipti við piltinn, en ók síðan á brott. Lögreglu var tilkynnt um slysið í dag. Við skoðun á slysadeild höfðu komið í ljós áverkar á piltinum, sem er á grunnskólaaldri, að því er kemur fram í tilkynningu.

„Við atvik eins og þetta er mikilvægt að ökumenn gangi úr skugga um að engin meiðsl hafi hlotist af né að skemmdir hafi orðið. Sömuleiðis er áríðandi að tilkynna málið til lögreglu, ekki síst vegna þess að áverkar eru ekki alltaf sjáanlegir á vettvangi,“ segir í tilkynningunni.

Þar er ökumaðurinn hvattur til að gefa sig fram. Önnur möguleg vitni eru einnig beðin um að hafa samband í síma 444-1000 eða í tölvupósti á netfangið abending@lrh.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert