Varðskipið Þór sent á Neskaupstað

Varðskipið Þór dró gamla varðskipið Maríu Júlíu inn til Akureyrar …
Varðskipið Þór dró gamla varðskipið Maríu Júlíu inn til Akureyrar í morgun, og fór að því loknu beint af stað austur á firði til að vera til taks vegna snjóflóðanna í Neskaupsstað og yfirvofandi flóðahættu á Austfjörðum. Mbl.is/Þorgeir Baldursson

Varðskipið Þór verður sent austur til að vera til taks vegna snjóflóða sem féllu á byggð í Neskaupstað í morgun. Einnig er til skoðunar að senda björgunarsveitafólk með þyrluflugi frá Reykjavík.  

Neyðarstigi almannavarna var lýst yfir á Neskaupstað í kjölfar snjóflóðanna og björgunaraðilar á svæðinu vinna nú að því að rýma hús ofarlega í byggðinni. En ekki er talið að fólk hafi slasast í flóðunum.

Að sögn Ásgeirs Erlendssonar var varðskip Landhelgisgæslunnar, Þór, fyrir norðan rétt við Akureyri og muni nú hefja siglingu austur, en áætlað sé að siglingin taki nokkurn tíma vegna vegalengdar.

Landhelgisgæslan hafi einnig til skoðunar að senda björgunarsveitafólk austur með þyrlum en hann segir það ekki liggja endanlega fyrir vegna veðurs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert