Anton Guðjónsson
Varðskipið Þór er væntanlegt til Seyðisfjarðar klukkan 21.30 í kvöld að sögn Ásgeirs Erlendssonar, upplýsingafulltrúa Landhelgisgæslunnar.
„Þaðan verður farið með vistir og viðbragðsaðila, bæði í Neskaupstað og á Eskifjörð. Sex viðbragðsaðilar fara út á hvorum stað,“ segir Ásgeir.
„Gert er ráð fyrir að 20 manns gisti í varðskipinu Þór í nótt. Þetta eru viðbragðsaðilar sem eru á staðnum.“
Ásgeir segir að varðskipið Þór hafi verið að draga hið sögufræga varðskip Maríu Júlíu frá Ísafirði og að það hafi verið að skila því af sér til Akureyrar í morgun þegar beiðni um aðstoð barst vegna snjóflóðanna.
Varðskipinu var þá siglt beint frá Akureyri austur á firði, og kemur það í höfn á Seyðisfirði klukkan hálf tíu í kvöld, eins og fyrr segir.