Yfir 200 manns hafa leitað á fjöldahjálparstöð

Frá Neskaupstað.
Frá Neskaupstað. Ljósmynd/Landsbjörg

Yfir 200 manns hafa komið við í fjöldahjálparstöðinni í Egilsbúð í Neskaupstað. Mörg hafa aðeins stoppað stutt í Egilsbúð en önnur halda kyrru fyrir að sögn Odds Freys Þorsteinssonar, kynningar- og fjölmiðlafulltrúa Rauða Krossins. 

Að hans sögn hafa á bilinu 10-20 manns komið í fjöldahjálparstöðina í Herðubreið á Seyðisfirði, en þar hefur verið lýst yfir snjóflóðahættu, en að minnsta kosti þrjú snjóflóð hafa fallið í Neskaupstað. 

Guðmundur Rafnkell Gíslason, íbúi á Neskaupstað, er einn þeirra sem leitaði í Egilsbúð fyrr í dag, eftir að heimili hans var rýmt af björgunaraðilum á svæðinu. Guðmundur, sem nú er komin í önnur hús fjær snjóflóðahættu, segir fólki bæjarins verulega brugðið.

„Það er fólk þarna inni sem upplifði snjóflóðin 1974 og því er náttúrulega sérstaklega brugðið að lenda aftur í þessum aðstæðum að koma aftur í Egilsbúð, sem fjöldahjálparstöð.“ 

Yfir 200 manns hafa leitað í fjöldahjálparstöðina í Egilsbúð.
Yfir 200 manns hafa leitað í fjöldahjálparstöðina í Egilsbúð. Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert