Ekki hægt að halla sér of þægilega aftur

„Það sem manni finnst kannski augljósast að breytist er að það hvernig störf eru unnin breytist að einhverju leyti,“ sagði Katla Ásgeirsdóttir, viðskiptaþróunarstjóri hjá máltæknifyrirtækinu Miðeind, um það hvað muni breytast á komandi árum vegna gervigreindarbyltingarinnar.

„Þetta er náttúrulega einföldun á alls konar störfum.“

Katla mætti í Dagmál ásamt Vilhjálmi Þorsteinssyni, eiganda og stofnanda Miðeindar, en nýverið var ljóstrað upp um samstarfsverkefni fyrirtækisins með OpenAI, við nýja útgáfu spjallmennisins ChatGPT, GPT-4. 

Mannlegi þátturinn mikilvægur

Kvað Vilhjálmur byltinginuna mögulega vera að hefjast á óvæntum enda, í skapandi geiranum, þar sem módelin séu orðin ansi snjöll í myndvinnslu og textaskrifum. Slíkt hafi komið mörgum á óvart.

„Síðan eru alls konar störf sem að byggja á vinnuferlum eða verkferlum sem hægt er að sjá fram á að hægt verði að sjálvirknivæða í meira mæli,“ sagði Vilhjálmur.

„Þetta er náttúrulega yfirleitt þannig að þá einhvers konar handavinna, eða mjög lítið frjó vinna, sem er þá verið að taka út.“

Katla Ásgeirsdóttir, viðskiptaþróunarstjóri hjá máltæknifyrirtækinu Miðeind
Katla Ásgeirsdóttir, viðskiptaþróunarstjóri hjá máltæknifyrirtækinu Miðeind mbl.is/Hallur Már

Katla tók í sama streng:

„Mannlegi þátturinn þarf að koma inn í þetta. Það þarf að yfirfæra allt, eins og við tölum um vélþýðingar í dag. Það verður eins með gervigreindina, við sjáum það strax,“ sagði hún og bætti við:

Við þurfum að vera gagnrýnin á það sem að líkönin spýta út úr sér og gera lagfæringar þar sem við á. Og það getur komið virkilega á óvart hvar þessara lagfæringa er þörf.“

Því sé mikilvægt að fólk láti ekki eins og gervigreindin geti unnið vinnuna fyrir sig.

„Ég held að það sé bara mikilvægt að fólk sé alltaf á tánum – setjist ekki aðeins of þægilega í stólinn og finnist eins og tæknin geti unnið fyrir okkur, því það er ekki alveg raunin.“

Hægt er að sjá brot úr viðtalinu hér fyrir ofan.

Vilhjálmur Þorsteinsson, eigandi og stofnandi Miðeindar.
Vilhjálmur Þorsteinsson, eigandi og stofnandi Miðeindar. mbl.is/Hallur Már
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert