Lögreglan á Vestfjörðum hefur lokið rannsókn á bruna í nýbyggingu fiskeldisstöðvar Arctic Smolt hf. í botni Tálknafjarðar.
Í Facebook-færslu lögreglunnar segir að þann 23. febrúar voru iðnaðarmenn við vinnu í byggingunni þar sem þeir voru að vinna við að þétta steypta veggi. Til þess notuðu þeir m.a. gas og opinn eld. Ljóst þykir að glóð hafi borist frá opna eldinum í plastteninga sem þarna voru ekki langt frá.
Plastteningarnir reyndust innihalda mjög eldfimt efni og varð mjög fljótt mikill eldur laus í byggingunni og báru tilraunir starfsmanna til að slökkva eldinn ekki árangur. Slökkvistarf tók um tíu klukkustundir.
Lögreglan á Vestfjörðum hefur haft málið til rannsóknar og telst það nú upplýst. Rannsóknardeild lögreglunnar á Vestfjörðum naut aðstoðar tæknideildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu við rannsóknina.
Þá segir í tilkynningunni að enginn hafi verið með réttarstöðu sakbornings við rannsókn málsins.