Jón biðst afsökunar

Jón Gunnarsson olli miklum usla á Alþingi í dag þegar …
Jón Gunnarsson olli miklum usla á Alþingi í dag þegar hann minntist umdeidlra orðróma í ræðustól. Eggert Jóhannesson

Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra, segir það ekki hafa verið rétt hjá sér að vitna í orðróm sem hefur verið á flakki um tiltekinn þingmann í ræðu sinni á Alþingi í dag. Hann biðst afsökunar í færslu á Facebook. 

Í ræðustól Alþingis fyrr í dag kallaði ráðherra eftir því að orðrómur um þingmann sem situr í allsherjar- og menntamálanefnd yrði kannaður. Sneri orðrómurinn að því að þingmaðurinn hefði þegið einhverskonar þakklætisvott í tengslum við störf sín í nefndinni. 

Orðum hans var mótmælt harkalega. 

Segir Jón að orðrómurinn sé um þingmann sem greitt hafi atkvæði um umsóknir um ríkisborgararétt handa einstaklingum sem hann hafi sinnt hagsmunagæslu fyrir.

„Þá hafi þingmaður hugsanlega í einhverju tilviki þegið þakklætisvott fyrir aðkomu sína að afgreiðslu mála,“ skrifar hann í færsluna.

Ætlaði ekki að ásaka neinn

Ráðherra kveðst ekki hafa sakað nokkurn um nokkuð á ræðustól Alþingis. Fremur segist hann aðeins hafa kallað eftir því að þessar sögusagnir yrðu skoðaðar „enda um alvarlegt mál að ræða ef rétt reynist.“

„Það hvarflaði hins vegar ekki að mér að ásaka neinn um að hafa þegið mútur og mér þykir leitt að ég hafi ekki orðað þann hluta ræðu minnar nægilega skýrt. Með engum hætti vil ég saka þingmenn um mútuþægni,“ skrifar hann að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert