Á þriðja hundrað manns komu að björgunaraðgerðunum vegna snjóflóðanna er féllu á Austfjörðum. Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, kveðst vita til þess að a.m.k. tíu hafi slasast í flóðunum en áverkar þeirra teljist minniháttar.
„En þetta eru talsverð meiðsl. Fólk hefur verið skorið og það hefur þurft að sauma og það er mikið um rispur og mar og annað slíkt,“ segir Víðir í samtali við mbl.is.
Snjóflóð féllu í byggð í Neskaupstað og á Seyðisfirði. Lenti eitt flóðið m.a. á fjölbýlishúsi með þeim afleiðingum að rúður brotnuðu og snjór flæddi inn í íbúðir og stigagang.
Vegna veðurs og snjóflóðahættu var þó erfitt að meta skemmdirnar í gær, að sögn Víðis.
„Við vitum af þessu fjögurra íbúða húsi í Neskaupstað, það eru talsverðar skemmdir á því. Það verður farið í verðmætabjörgun á því þegar það verður óhætt vegna ofanflóðahættunnar. Síðan skemmdust einhverjir bílar þar fyrir utan og þetta féll utan í einhver önnur hús,“ segir Víðir.
Veðurspár gera ráð fyrir úrkomu á miðvikudag. Víðir kveðst vona að allt gangi vel og ekki þurfi að grípa til rýmingar en það sé þó viðbúið.
Sérsveitarmenn, menn frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, björgunarsveitarfólk og sjúkraflutningamenn voru meðal þeirra ríflega tvö hundruð sem komu að björgunaraðgerðunum á Austfjörðum í gær.
Víðir segir að rýmingin á svæðinu hafi verið með þeirri stærri í seinni tíð.
„Aftur á móti var það í desember 2020 sem við rýmdum allan Seyðisfjörð vegna hættu á skriðum. Íbúarnir allir hafa gegnt veigamesta hlutverkinu, að rýma og koma sér í öruggt skjól,“ segir Víðir.