Stýrinefnd Evrópuráðsins um réttindi barna (CDENF) fundar í Reykjavík í dag og á morgun um réttindi barna á grundvelli stefnu Evrópuráðsins í málefnum barna.
Í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins segir að fundurinn sé skipulagður sem hluti af formennskuáætlun Íslands í ráðherranefnd Evrópuráðsins.
„Fundurinn í Reykjavík markar fyrsta skipti sem nefndin kemur saman utan höfuðstöðva Evrópuráðsins í Strassborg, þar sem nefndin fundar tvisvar á ári. Helstu málefni sem nefndin mun fjalla um í Reykjavík eru hvernig efla megi tilkynningar um ofbeldi gegn börnum, stuðla að fjölgun Barnahúsa í aðildarríkjum Evrópuráðsins og hlúa að réttindum og velferð úkraínskra barna,“ segir í tilkynningunni.
CDENF er milliríkjastofnun Evrópuráðsins, skipuð sérfræðingum um réttindi barna frá öllum 46 aðildarríkjum ráðsins.