Þurfa að fresta verkefnum

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við erum að reyna að koma fram með fjármálaáætlun sem tekur á verðbólgu með annars vegar aukinni tekjuöflun og hins vegar auknu aðhaldi,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra.

Fjármálaáætlun verður kynnt á morgun og umræða hefst um hana á Alþingi á föstudag sem svo verður frestað yfir páskana.

Viðhalda ákveðnu fjárfestingarstigi

„Við erum að reyna að gera þetta með þeim hætti að hægt verði að viðhalda ákveðnu fjárfestingarstigi, sérstaklega á arðsömum framkvæmdum en það er óneitanlega þannig að þenslan núna á þessu ári og því næsta er þannig að við þurfum að taka tillit til hennar,“ segir hann.

Sigurður Ingi segir að óhjákvæmilega þurfi að fresta einhverjum verkefnum.

„Miðað við allt sem ég vildi geta gert er augljóslega einhver frestun á því en við gátum haldið mikilvægum samgönguverkefnum á lofti í gegnum þetta ár og munum einnig ná því á næsta ári enda eru þar um að ræða arðsömustu framkvæmdirnar.“

Óttast að markaðurinn sé að frjósa

Sigurður segir að stjórnvöld séu alla daga að átta sig á því hvað sé í gangi í húsnæðismálunum og hvað sé í pípunum. Hann segir að stjórnvöld óttist að markaðurinn sé að frjósa og að byggingastarfsemi dragist hratt saman en tekur fram að hún sé í fullum gangi ennþá.

„Við erum svolítið að horfa inn í það að styðja við ákveðna hluta inn í húsnæðishlutanum. Það tekur tvö ár að byggja hús eða íbúðir þannig að það þarf að sjá fyrir hvað við getum verið að gera á næsta ári svo það skili sér á því þarnæsta,“ segir Sigurður Ingi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka