Varðskipið Þór er komið í Neskaupstað en áhöfnin batt landfestar laust fyrir miðnætti. Þetta staðfestir Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar.
Um borð í varðskipinu eru viðbragðsaðilar og vistir en landleiðin til Neskaupstaðar er ófær vegna fannfergis.
Gert er ráð fyrir að 20 manns gisti í varðskipinu í nótt.
Snjóflóð féllu í Neskaupstað og á Seyðisfirði fyrr í dag. Talsvert eignatjón varð og slasaðist fólk þegar að eitt flóð féll í byggð og á fjölbýlishús.
Stór hópur björgunarsveitarmanna hefur setið fastur á Egilsstöðum í dag að bíða þess að komast áfram en ófært er víða á Austurlandi vegna fannfergis.
Í kvöld var loks hægt að ferja björgunarsveitarfólk yfir til Seyðisfjarðar þar sem varðskipið var komið til að ferja það áfram á Eskifjörð og í Neskaupstað.
Þá var barnshafandi kona flutt með þyrlu Landhelgisgæslunnar fyrr í kvöld frá Neskaupstað til Egilsstaða.