Talsvert var um ferðafólk í vandræðum vegna veðurs á Suðurlandi í gærkvöldi og í nótt, en aðgerðir stóðu yfir til klukkan fimm í nótt.
Að sögn Jóns Þórs Víglundssonar, upplýsingafulltrúa Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, var mikið af útköllum við Pétursey fyrir neðan Mýrdalsjökul, en björgunaraðilar aðstoðuðu um 40-50 manns á þeim slóðum.
Hann segir öll útköllin hafa verið fólk í stökum bílum sem lenti í vandræðum vegna úrkomu og færðar. Gular viðvaranir eru á Suðurlandi vegna austan storms og snjókomu.
Um tíu bifreiðar voru veðurtepptar og Jón Þór segir um 30 manns hafa verið flutt af björgunaraðilum á Vík, þar sem var opnuð fjöldahjálparmiðstöð.
Engin slys urðu og eru allir ferðamennirnir vel haldnir að sögn Jón Þórs. Fjöldi bíla var hins vegar skilinn eftir við Pétursey og verkefni morgunsins hafa verið að koma fólki aftur að bílunum og losa þá.