Ekki er þörf á frekari rýmingum á Austfjörðum í bili. Þetta er niðurstaða fundar aðgerðastjórnar lögreglu á Austurlandi með Veðurstofu vegna mikillar úrkomu á Austfjörðum næsta eina og hálfa sólarhringinn eða svo.
Í tilkynningu frá aðgerðastjórn er rakið að gert er ráð fyrir umtalsverðri úrkomu í kvöld og fram til föstudagsmorguns. Byrjar á sunnanverðum fjörðunum. Snjókomu er spáð og rigningu.
„Það er mat Veðurstofu að ekki sé þörf á frekari rýmingum að svo stöddu. Vegna mögulegra krapaflóða eru íbúar þó beðnir um að hafa varann á nærri árfarvegum.
Íbúar beðnir um að fylgjast vel með tilkynningum frá lögreglu á vefmiðlum,“ segir í tilkynningunni.